Tvö nauðgunarmál í Eyjum upplýst

Frá Herjólfsdal um verslunarmannahelgina
Frá Herjólfsdal um verslunarmannahelgina mbl.is/Jakob Fannar

Tvö af þremur nauðgunarmálum, sem kærð voru á þjóðhátíð um verslunarmannahelgina, eru upplýst en ekki hefur verið gefin út ákæra á hendur árásarmönnunum að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns á Selfossi.

22 ára maður var handtekinn um verslunarmannahelgina vegna nauðgunar sem átti sér stað á föstudagskvöldinu  en honum var sleppt eftir skýrslutöku. Tilkynnt var um tvær nauðganir aðfaranótt frídags verslunarmanna og staðfestir Oddur að búið sé að upplýsa hver meintur gerandi er í öðru málinu líkt og á föstudagskvöldinu. Málin þrjú eru hins vegar öll enn í rannsókn og ekki hægt að veita frekari upplýsingar um þau að svo stöddu.

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu lögreglustjórans á Selfossi um að Símanum verði gert að afhenda lögreglu upplýsingar um inn- og úthringingar um þau fjarskiptamöstur sem náðu inn í Herjólfsdal á tíu mínútna tímabili aðfaranótt frídags verslunarmanna.  Sneri Hæstiréttur þar við niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands sem hafði fallist á beiðni lögreglu.

Oddur Árnason segir að niðurstaða Hæstaréttar um að Síminn þurfi ekki að afhenda lögreglu upplýsingarnar komi ekki mjög á óvart en það veki hins vegar spurningar um hvers vegna ekki megi afhenda slík gögn á meðan eftirlitsmyndavélar eru víða leyfðar.

Lögreglan á Selfossi rannsakar kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku aðfaranótt mánudagsins 6. ágúst sl. við Fjósaklett í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Stúlkan hefur gefið lýsingu á sakborningi og klæðnaði hans og telur lögreglan að við skoðun á upptöku úr eftirlitskerfi, sem sett var upp vegna Þjóðhátíðar um helgina, megi sjá karlmann, sem svipi til lýsingar á sakborningi, hlaupa frá brotavettvangi.

Á upptökunni megi einnig greina að maðurinn tali í farsíma. Lögreglan telur mikilvægt að fá umbeðnar upplýsingar um símtöl í Herjólfsdal á tíu mínútna tímabili á sjötta tímanum um morguninn svo sanna megi deili á þeim manni sem sést á upptökunni úr eftirlitskerfinu.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að heimild til að afla gagna samkvæmt lögum um meðferð sakamála væri íþyngjandi rannsóknarúrræði sem fæli í sér undantekningarreglu frá 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og af þeim sökum yrði ákvæðið ekki skýrt rýmra en leiðir af texta þess.

Auðveldar ekki rannsókn málsins

Oddur segir að niðurstaða Hæstaréttar geri lögreglu ekki auðveldara fyrir við rannsókn málsins og að upplýsa um hver þessi tiltekni maður sé og hvort hann tengist málinu á einhvern hátt. Úrskurðurinn sé í samræmi við fyrri úrskurði sem kveðnir hafa verið upp á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Þau lög voru í gildi til ársins 2008 er núgildandi sakalög (lög nr. 88/2008) tóku gildi.

Í umfjöllun Alþingis, þegar þau lög voru sett, var fjallað sérstaklega um þessa tilteknu lagagrein sem um ræðir (80. gr l. 88/2008) og þar kom fram að það úrræði sem óskað var eftir, það er að fá upplýsingar um símtöl og önnur fjarskipti án þess að aðgangur sé veittur að þeim, sé tiltölulega væg skerðing á friðhelgi einkalífsins.

Eftirlitsmyndavélar nánast á hverri þúfu

„Við vildum láta reyna á það hvort Hæstiréttur féllist á það að þetta væri væg skerðing á friðhelgi og töldum nokkuð sterkar líkur þar á,“ segir Oddur og bætir við að heimilað sé að afla upplýsinga, á grundvelli persónulaga, á nánast hverri þúfu og vísar þar til öryggismyndavéla sem meðal annars voru settar upp í Herjólfsdal fyrir þjóðhátíð.

Hann segist velta því fyrir sér hvort það sé meira inngrip að skoða notkun á símum á tilteknu tímabili en að skoða myndir úr myndavélum á sama tímabili sem er heimilt. Ekki hafi verið farið fram á að skoða sms skilaboð né hlusta á símtöl fólks á þessum tíma enda slíkar upplýsingar ekki vistaðar heldur einungis að fá upplýsingar um í hvaða farsíma hafi verið talað á þessu tiltekna tíu mínútna tímabili.

Oddur segir að niðurstaða Hæstaréttar þýði að lögreglan þurfi að leita annarra leiða til að upplýsa  hver þessi einstaklingur er og það er ekki auðveldara eftir þessa niðurstöðu Hæstaréttar en eins og áður sagði er þetta eina nauðgunin, sem var kærð á þjóðhátíð, þar sem ekki er upplýst hver gerandinn er.

Hann segir niðurstöðu Hæstaréttar í máli Símans gilda um önnur símafyrirtæki og því muni lögreglan ekki afla upplýsinga um símnotkun hjá öðrum símafélögum í Herjólfsdal á sama tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert