Fjórtán ára fangelsisdómur sem kveðinn var upp yfir Guðgeiri Guðmundssyni fyrir að stinga Skúla Eggert Sigurz, framkvæmdastjóra lögmannsstofunnar Lagastoða, ítrekað með hnífi var of þung refsing, að mati Guðgeirs. Hann hefur áfrýjað dómnum til Hæstaréttar sem mun eiga lokaorðið.
Guðgeir játaði að hafa ráðist á Skúla Eggert á skrifstofu hans að morgni 5. mars sl. og stungið hann fimm sinnum með hníf. Einnig að hafa veitt Guðna Bergssyni tvö stungusár. Hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps og fór ríkissaksóknari fram á 16 ára fangelsi yfir honum.
Saksóknari sagði hreint ótrúlegt að Skúli skyldi lifa atlöguna af en aðeins vantaði millimetra upp á að flugbeittur hnífurinn færi í hjartað og einnig lungnaslagæð. Hann fór hins vegar í lifur, nýru, lungu og þind. Skúla blæddi gríðarlega og gekk illa að stöðva blæðinguna. Þurfti að lokum að taka úr honum annað nýrað. Þegar upp var staðið var búið að skipta um allt blóð í líkama Skúla átta sinnum.
Meðan á atlögunni stóð spurði Skúli Guðgeir hvers vegna hann væri að ráðast á sig. Guðgeir svaraði því til að hann hataði lögfræðinga.
Þrátt fyrir allt hafnaði Guðgeir því að til hefði staðið að bana Skúla. Verjandi hans sagði svo við málflutning að rangt væri að ákæra hann fyrir tilraun til manndráps. Um væri að ræða sérstaklega hættulega líkamsárás. Sagði hann að fimm ára fangelsi væri hæfilegt fyrir atlöguna.
Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur sagði að árás Guðgeirs hefði verið með þeim hætti að ekki yrði hjá því komist að líta svo á að hann hefði viljað að Skúli biði bana af. Þótti fjórtán ára fangelsi því hæfileg refsing auk þriggja milljóna króna í miskabætur til Skúla og 800 þúsund króna til Guðna.
Eins og áður segir ákvað Guðgeir að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.