Reyndu að ná skipsbjöllu HMS Hood

Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur.
Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur. mbl.is/Ragnar Axelsson

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir frá því á blog-síðu sinni þegar hann í þessum mánuði var um borð í snekkjunni M/Y Octopus og var vitni að því þegar fjarstýrður kafbátur var sendur niður að flaki breska herskipsins HMS Hood í Grænlandssundi. Markmiðið var að ná úr djúpinu skipsbjöllu skipsins.

Einungis 3 komust af þegar skipinu var sökkt

„Flakið hvílir á um 2.848 metra dýpi og þar um borð og á hafsbotninum umhverfis er nær öll 1.418 manna áhöfnin. Aðeins þrír komust af þegar stærsta herskipi Breta var sökkt hér á örfáum mínútum í orrustu við þýska herskipið Bismarck hinn 24. maí árið 1941. Það sökk um 500 km beint vestur af Reykjanesi.“

Urðu frá að hverfa vegna veðurs

Um leiðangurinn segir Haraldur: „Skipsbjallan hafði verið upphaflega á þilfari skipsins. […] Við sendum fjarstýrðan kafbát niður og fljótlega fannst bjallan, en hún var ofan á haug af miklu rusli úr skipinu og hvíldi undir stálþili, sem slútti yfir. Þetta gerði okkur erfitt að ná til hennar.

Kafbáturinn hefur tvo vélarma, sem geta verið furðu fimir. Það tókst að koma járnkrók í gatið efst á bjöllunni, en þegar átakið kom á krókinn, þá réttist úr honum og bjallan slapp af og seig lengra niður í ruslið. Nú fór veður versnandi og varð því að hætta frekari köfun þegar vindur fór yfir 30 hnúta og sjór var orðinn nokkuð mikill. Við skildum því við bjölluna á botninum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert