Réttindum var ekki raskað

Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans, í Héraðsdómi Reykjavíkur …
Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Andri Karl

Ljóst er að ætluð brot tveggja lögreglufulltrúa sem kærðir hafa verið til ríkissaksóknara vegna trúnaðarbrota gátu á engan hátt haft áhrif á rannsókn eða útgáfu ákæru á hendur Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni. Því hafi réttindum þeirra ekki verið raskað og hafna ber kröfu um frávísun. Þetta sagði saksóknari við munnlegan málflutning í dag.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu verjenda Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og Guðmundar Hjaltasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans. Þegar hefur verið sagt frá nýjum upplýsingum sem komu fram í dag og einnig frá röksemdum verjenda Lárusar.

Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, er eðli málsins samkvæmt ekki sammála verjendum í málinu og fer hann fram á að kröfum þeirra verði hafnað og málið fari í aðalmeðferð. Engu að síður var hann harðorður í garð lögreglufulltrúanna tveggja og sagðist ekki ætla mæla þeim bót. Hins vegar væri það staðreynd að meint brot þeirra tengist ekki sönnunargögnum í málinu og ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að rannsókn málsins hafi verið ófullnægjandi eða að hallað hafi á Lárus og Guðmund.

Hann sagði að lögreglufulltrúarnir tveir hefðu einfaldlega ekki haft stöðu til þess að hafa slík áhrif á rannsóknina sem verjendur vilji meina. Þeir hvorki skilgreindu né báru ábyrgð á sakarefninu né markmiði rannsóknarinnar. „Rannsókn málsins fjallaði um meint auðgunarbrot ákærðu, ákvarðanatöku og millifærslu fjármuna. Þessi atvik eru með engum hætti tengd því viðfangsefni sem unnið var fyrir Milestone,“ sagði Hólmsteinn en bætti við síðar að ekki væri útilokað að ýmsar staðreyndir í rannsókninni hefðu ratað í hendur óviðkomandi á sama tíma, vegna starfsóhollustu.

Gátu ekki stýrt rannsókninni eftir eigin höfði

Hólmsteinn sagði einnig að lögreglufulltrúarnir hefðu ekki verið einráðir um vinnu sína hjá embætti sérstaks saksóknara. Þeir lutu stjórn annarra og háttsettari lögreglumanna. Stjórnandi þeirra hafi verið aðstoðaryfirlögregluþjónn og þar fyrir ofan var svo lögreglustjórinn sjálfur, sérstakur saksóknari. „Lögreglumennirnir höfðu ekki stöðu eða heimildir til að taka ákvarðanir eða bera ábyrgð á þeim varðandi rannsókn málsins. Sett hafi verið markmið rannsóknar.“

Þá sagðist Hólmsteinn sjálfur ekki hafa frétt af starfi lögreglufulltrúanna fyrir þrotabú Milestone fyrr en í mars og í apríl hafi verið ljóst í hverju vinna þeirra var fólgin. Ekkert liggi hins vegar fyrir um að þeir hafi ekki gætt hlutleysis í rannsókninni, enda hafi þeir ekki haft stöðu til annars. Þá hafi þeir verið í daglegum samskiptum við aðra starfsmenn, lögfræðinga og lögreglumenn og gátu því ekki stýrt rannsókninni í aðrar áttir en fyrir þá var lagt.

Fullt tilefni til saksóknar

Hólmsteinn sagði jafnframt að lögreglufulltrúarnir hefðu ekkert með það að gera að gefin væri út ákæra. Hann hafi fengið málið úthlutað og tekið sér fjörutíu daga til að fara yfir rannsóknargögn. Eftir þá yfirferð hafi hann ákveðið að ákæra. Þá mótmælti hann harkalega orðum verjenda um að það hefði verið gefin út ákæra fyrir jól vegna þess að það væri þægilegt fyrir embættið, s.s. að sýna að málum miðaði áfram.

Hann sagði verjendur gera lítið úr sinni vinnu ef þeir telji að ákæran sé alfarið byggð á vinnu rannsakenda. Morgunljóst sé að vinnan sé að einhverju leyti byggð á því. „En að ætla að hann hafi ekki lagt sjálfstætt mat á rannsóknargögn er einfaldlega fráleitt. Niðurstaða saksóknara var að fullt tilefni væri til saksóknar og ekkert tilefni er til að draga ákæruna til baka.“

Sönnunarfærslan fyrir dómi

Það sem Hólmsteinn sagði skipta mestu máli væru gögnin í málinu. Þó svo hugsanlega sé hægt að setja spurningarmerki við skýrslur sem lögreglufulltrúarnir tóku af sakborningum eða vitnum þá fari sönnunarfærslan fram fyrir dómi. Skýrslur hjá lögreglu hafi takmarkað gildi, þó þær hafi vissulega þýðingu.

Hann sagði að verjendur hefðu í engu getað bent á tiltekin gögn í málinu sem valda ættu  frávísun. Ekkert skjal sem varðar sakarefni málsins. „Þeir tefla fram almennri og óljósri umfjöllun um lagareglur án þess að tengja þær gögnum eða atvikum sakamálsins.“

Einnig sagði hann verjendur ekki hafa rökstutt það hvernig útgáfa ákæru í málinu gat haft áhrif á fjárhagslega hagsmuni lögreglufulltrúanna. „Það eru engin tengsl. Störf þeirra fyrir þrotabúið lutu að því að fjalla um gjaldfærni Milestone, ekki störf ákærðu hjá Glitni eða nokkuð annað um ákærðu.“

Hólmsteinn sagði sakamálið byggt upp á skjallegum gögnum, sýnilegum sönnunargögnum. Ekki hafi verið bent á að þar séu annmarkar. Þá hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir við skýrslustökur af sakborningum hjá lögreglu. „Ekkert við rannsókn málsins var með þeim hætti að ákvörðun um ákæru sé ófullkomin. [...] Engin réttarspjöll hafa orðið sem leiða ættu til frávísunar.“

Umfjöllun mbl.is um málflutninginn í morgun heldur áfram síðar í dag.

mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert