Hópur fólks, þar á meðal Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, fyrrverandi þingmenn og ráðherrar, skrifar undir áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar um að Grímsstaðir á Fjöllum verði þjóðareign en auglýsing þar að lútandi er birt í Morgunblaðinu í dag.
Meðal þeirra sem skrifa undir eru þeir Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjórar Morgunblaðsins, Páll Skúlason, heimspekingur og fyrrverandi háskólarektor, Ómar Þ. Ragnarsson fréttamaður, Ólafur Stefánsson handboltamaður, Hreinn Friðfinnsson myndlistarmaður og rithöfundarnir Pétur Gunnarsson og Jón Kalman Stefánsson.