Vill að bókun vegna peningamála verði birt

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og fulltrúi í samninganefnd Íslands vegna …
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og fulltrúi í samninganefnd Íslands vegna ESB-umsóknarinnar. mbl.is/Ragnar Axelsson

„Hvers vegna eru ráðherrar VG nú að óska eftir endurmati á aðildarviðræðunum ef þeir bókuðu þegar í júlí fyrirvara sem í reynd útiloka frekari viðræður,“ segir Þorsteinn Pálsson, sem sæti á í samninganefnd Íslands vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið, í grein í Fréttablaðinu í dag.

Þorsteinn vísar þar til þess að samningsafstaða Íslands í efnahags- og peningamálum hafi verið samþykkt á ríkisstjórnarfundi í júlí en hann hafði áður sagt að hún hefði verið samþykkt fyrirvaralaust í ríkisstjórn og þar með talið af ráðherrum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Í samningsafstöðunni segir meðal annars að Ísland stefni að því að taka upp evru sem gjaldmiðil í stað íslensku krónunnar eins fljótt og mögulegt er.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafnaði ummælum Þorsteins í grein í sama blaði síðastliðinn miðvikudag og sagði þrjá fyrirvara hafa verið gerða við samningsafstöðuna; varðandi afnám gjaldeyrishafta, varðandi inngöngu í ERM II-gjaldeyrissamstarfið og varðandi upptöku evru.

Þorsteinn segir það mikil tíðindi að ráðherrar VG hafi gert áðurnefnda fyrirvara. „Erfitt er að vefengja orð ráðherrans. Það merkir að VG hefur í raun og veru stöðvað aðildarviðræðurnar í júlí. En er það svo? Samþykktu ráðherrar VG ekki samningsafstöðuplaggið?“

Hann bendir á að samkvæmt þingræðisreglunni þurfi stefna Íslands að njóta meirihlutastuðnings á Alþingi. „Utanríkisráðherra getur því ekki rætt samningsafstöðuna um upptöku evru við ríki Evrópusambandsins nema ríkisstjórnarflokkarnir hafi verið efnislega sammála henni við ríkisstjórnarborðið og hana megi kynna sem stefnu Íslands án fyrirvara um kjarnaatriði hennar.“

Þorsteinn segir að lokum að til að eyða þessari óvissu sé „óhjákvæmilegt að birta bókun ríkisstjórnarinnar um þetta mál“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert