Halldóra Ísleifsdóttir hefur tekið við stöðu prófessors í grafískri hönnun við hönnunar- og arkitektúrsdeild Listaháskóla Íslands. Ráðningin er gerð á grundvelli hæfismats til stöðu háskólakennara frá 2009 og á forsendum þeirra verka sem hún hefur unnið á sínu sviði síðan þá, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Halldóra hefur mikla og fjölbreytta reynslu á sviði grafískrar hönnunar auk langrar reynslu af háskólakennslu á því sviði. Hún hefur starfað sem grafískur hönnuður, hönnunarstjóri og listrænn stjórnandi á hönnunarstofum og einnig starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður, hugmyndasmiður og ráðgjafi. Þá hefur hún stýrt verkefnum í grafískri hönnun, markaðssetningu og nýsköpun og setið í ýmsum dómnefndum og ráðgjafarnefndum á þeim sviðum. Í álitsgerð dómnefndar er tekið fram að Halldóra sé „djarfur og frumlegur hönnuður með listræna sýn á greinina.“
Halldóra hóf störf sem stundakennari við Listaháskólann árið 1999 og tók við starfi fagstjóra grafískrar hönnunar 2006. Síðan 2009 hefur hún gegnt starfi háskólakennara með starfsheiti lektors.