Pólitískur samningafundur um makrílinn

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samningafundur hófst í morgun í London þar sem freista á þess að finna lausn á makríldeilunni en ákveðið var í sumar að fundurinn yrði haldinn. Ekki er um að ræða hefðbundinn fund samninganefnda eins og verið hefur til þessa heldur fund pólitískra forystumanna deiluaðila á sviði sjávarútvegsmála. Slíkir fundir eru jafnan boðaðir þegar deilur þykja komnar meira eða minna í hnút.

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra situr fundinn fyrir Íslands hönd auk aðstoðarmanns síns Hugins Freys Þorsteinssonar og Sigurgeirs Þorgeirssonar, aðalsamningamanns Íslands í deilunni. Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, er fulltrúi ríkja sambandsins og sjávarútvegsráðherrar Noregs og Færeyja fulltrúar sinna lands, Lisbeth Berg-Hansen og Jacob Vestergaard.

Samkvæmt heimildum mbl.is mun samningafundurinn líklega standa einungis í dag en ekki næstu daga eins og gjarnan hefur verið þegar samninganefndir deiluaðilanna hafa reynt að finna lendingu í deilunni en fundurinn hófst í morgun.

Hótaði verði hléi á ESB-aðildarviðræðunum

Hagsmunaaðilar og stjórnmálamenn innan Noregs og Evrópusambandsins hafa sent frá sér yfirlýsingar undanfarið þar sem brýnt hefur verið fyrir sjávarútvegsstjóra sambandsins að taka harða afstöðu gagnvart Íslendingum og Færeyingum og áhersla meðal annars lögð á að ekki sé ásættanlegt að samþykkja aukinn makrílkvóta þeim til handa enda séu kröfur þeirra óréttlætanlegar.

Þá hefur ennfremur verið hvatt meðal annars til þess að Evrópusambandið beiti Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum í formi viðskiptaþvingana ef ekki náist samkomulag og að hlé verði gert á viðræðum við Ísland um inngöngu landsins í sambandið.

Færeyingar upphaflega ekki boðaðir

Fram kemur á færeyska fréttavefnum Kringvarp.fo að upphaflega hafi Færeyingum ekki verið boðið á samningafundinn þegar ákveðið hafi verið að boða til hans í sumar. Síðan hafi þau skilaboð borist fyrst frá Norðmönnum og síðan Evrópusambandinu að fulltrúi Færeyinga væri velkominn á fundinn.

Frétt Kringvarp.fo

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert