Fram kemur í endanlegri útgáfu frumvarps að reglugerð Evrópusambandsins, um refsiaðgerðir gegn ríkjum utan sambandsins sem það telur stunda ósjálfbærar fiskveiðar, að áður en gripið sé til slíkra aðgerða verði fyrst að meta hvaða umhverfislegu, efnahagslegu, viðskiptalegu og félagslegu áhrif þær kunni að hafa til bæði skamms tíma og lengri tíma.
Þá verði einnig að leggja mat á það hvort þær aðgerðir sem gripið sé til séu líklegar til þess að skila tilætluðum árangri og hvort þær samrýmist skyldum Evrópusambandsins samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem sambandið er aðili að sem og alþjóðalögum. Sérstaklega er skírskotað í því sambandi til stofnsáttmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).
Þess má geta að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á það að ef refsiaðgerðum eins og þeim, sem rætt hefur verið um á vettvangi Evrópusambandsins, yrði beitt gegn Íslendingum vegna makríldeilunnar bryti það í bága við alþjóðasamninga sem bæði Ísland og sambandið eru aðilar að. Hafa þau bæði nefnt stofnsáttmála WTO í því sambandi sem og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
Fá einn mánuð til þess að bæta ráð sitt
Ennfremur er fjallað um það í frumvarpinu með hvaða hætti beri að tilkynna ríki sem Evrópusambandið telur stunda ósjálfbærar fiskveiðar um að til standi að grípa til refsiaðgerða gagnvart því, þegar tekin hefur verið ákvörðun um það á vettvangi sambandsins. Þá beri að senda viðkomandi ríki skriflega tilkynningu þess efnis og ríkið fái síðan eins mánaðar frest til þess að svara skriflega og bæta ráð sitt.
Frumvarpið kveður á um ýmsar refsiaðgerðir sem Evrópusambandið fái heimild til þess að grípa til telji það þörf á því. Þó er tekið fram að aðgerðirnar skuli vera í samræmi við þau markmið sem stefnt sé að og að þeim sé ekki beitt handahófskennt eða með óréttmætri mismunun á milli ríkja þar sem sambærilegar aðstæður séu fyrir hendi. Þá sé óheimilt að beita þeim í þeim tilgangi að hindra alþjóðleg viðskipti.
Víðtækar refsiaðgerðir heimilaðar
Meðal þeirra refsiaðgerða sem Evrópusambandinu verður heimilt að grípa til samkvæmt frumvarpinu eru að setja hömlur á landanir á afla í höfnum sambandsins úr þeim fiskistofnum sem talið er að viðkomandi ríki stundi ósjálfbærar veiðar á. Einnig er heimilt að grípa til slíkra takmarkana á löndun afla úr öllum fiskistofnum sem deila sama vistkerfi og fiskistofninn sem deilt er um sem og afurðum sem unnar eru úr fiski úr þeim stofni sem deilur standa um.
Þá er kveðið á um ýmsar hömlur sem grípa megi til varðandi þjónustu fiskiskipa frá viðkomandi ríki sem stunda veiðar úr þeim fiskistofni eða -stofnum sem deilt er um og einnig varðandi viðskipti á milli aðila frá ríkinu annars vegar og Evrópusambandinu hins vegar með fiskiskip. Einnig með búnað tengdum sjávarútvegi sem nota á við veiðar úr viðkomandi fiskistofni sem deilt er um.
Málið tekið fyrir um miðjan september
Ennfremur segir í frumvarpinu að hægt sé að beita umræddum refsiaðgerðum gegn ríki utan Evrópusambandsins jafnvel þó veiðar úr fiskistofninum sem deilt er um séu ekki lengur ósjálfbærar að áliti sambandsins ef ástæða þess er sú að önnur ríki hafi dregið úr sínum veiðum.
Gert er ráð fyrir að frumvarpið, sem mbl.is hefur undir höndum, verði lagt fyrir Evrópuþingið 12. september næstkomandi og er búist við að hægt verði að beita þeim heimildum sem kveðið er á um í því fljótlega eftir það.