Vantrú sendi inn upphaflegt erindi

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Ómar

Félagið Vantrú, sem hefur það að markmiði að berjast gegn boðun hindurvitna, hefur sent siðanefnd Háskóla Íslands að nýju erindi sem upphaflega var sent í febrúar 2010. Um er að ræða kæru á hendur stundakennara vegna brots á siðareglum HÍ.

Erindið var sent inn að nýju sökum þess að efnisleg niðurstaða fékkst ekki í upphaflega málinu, en því lauk með því að Vantrú dró það til baka. Hjá Vantrú fengust þær upplýsingar að forsvarsmenn þess myndu ekki tjá sig um það fyrr en niðurstaða liggur fyrir.

Í upphaflegri kæru Vantrúar segir að Bjarni Randver Sigurvinsson, stundakennari við guðfræði- og trúarbragðafræðideild, hafi orðið deildinni til minnkunar í umfjöllun sinni um félagið, þar sem meðferð hans á tilvitnunum í félagsmenn og uppsetning sé hreinn áróður og skrumskæling á afstöðu félagsins.

Var það gagnrýnt að Bjarni Randver hafði ekki samband við Vantrú til að fá upplýsingar um félagið. Í stað þess sé efnisval hans siðlaust og áhersla lögð á persónuleg skrif félagsmanna.

Grafa undan allsherjarreglu

Í desember síðastliðnum ræddi mbl.is við Matthías Ásgeirsson, einn stofnenda Vantrúar, þar sem hann segir ástæðu þess að kvartað hafi verið undan Bjarna Randveri þá, að hann hafi tekið orð meðlima Vantrúar gróflega úr samhengi og teiknað upp einhliða og villandi mynd af félaginu.

Til dæmis sé Vantrú bendluð við herskáan málflutning sem sé „vatn á myllu haturshreyfinga sem grafi undan allsherjarreglu samfélagins og almennu siðferði,“ eins og segir á glæru um Vantrú sem Bjarni Randver notaði í kennslu sinni í námskeiði um nýtrúarhreyfingar.

Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor ritaði bréf til starfsfólks skólans í febrúar síðastliðnum þar sem hún segir að efnisleg niðurstaða hafi ekki komið fram í málinu. „Það voru því margar spurningar í málinu sem átti eftir að svara og því vildi ég koma því á framfæri að það er ekkert sem hefur komið fram í meðferð málsins sem bendir til að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi," segir í bréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka