Mægður sem ákærðar eru fyrir stórfelldan búðarþjófnað á árunum 2010 og 2011 óskuðu eftir fresti við þingfestingu málsins til að taka afstöðu til ákærunnar. Konurnar stálu vörum úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu fyrir um 14 milljónir króna frá 1. janúar 2010 til 20. október 2011.
Konurnar voru gripnar í Smáralind 20. október 2011 og höfðu þær þá á sér vörur fyrir um 200 þúsund krónur sem þær höfðu stolið úr verslunum, en um var að ræða dýran fatnað. Þegar leitað var í íbúðum þeirra kom í ljós gríðarlegt magn þýfis sem konurnar eru taldar hafa sankað að sér frá 1. janúar 2010.
Við þingfestinguna í dag þuldi fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu upp ákæruna. Annarri konunni er í fyrsta lagi gefinn að sök þjófnaður, fyrir að hafa á umræddu tímabili stolið 517 vörum að verðmæti 6,5 milljóna króna, en lagt var hald á verðmætin á heimili hennar í Reykjavík.
Að öðru lagi er henni gefinn að sök þjófnaður en til vara hylming með því að hafa á heimili sínu 422 vörur að verðmæti rúmlega sex milljóna króna sem talið er að stolið hafi verið úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2010 eða 2011.
Í þriðja lagi er henni gefið að sök fíkniefnabrot en á heimilinu fundust einnig 21 kannabisplanta og 129 grömm af kannabislaufum.
Hinni konunni er í fyrsta lagi gefinn að sök þjófnaður með því að hafa á umræddu tímabili stolið 43 vörum úr Kringlunni og Smáralind en verðmæti þeirra er um 420 þúsund krónur.
Í öðru lagi er henni gefinn að sök þjófnaður en til vara hylming með því að hafa á dvalarstað sínum haft 60 vörur að verðmæti um einnar milljónar króna sem hún stal eða stolið var úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu.
Í þriðja lagi er henni gefinn að sök þjófnaður en hún var gripinn 12. apríl á þessu ári með fatnað að verðmæti átta þúsund króna í verslun Debenhams í Smáralind. Stakk hún fötunum inn á sig og gekk út úr versluninni.