Um 300 athugasemdir hafa borist

Um 300 athugasemdir hafa borist við tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut. Frestur til að skila inn athugasemdum rann út í gær en skipulagsráð Reykjavíkurborgar ákvað á fundi í morgun að framlengja frestinn til 20. september.

Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, segir að af þessum 300 athugasemdum séu um 2/3 athugasemdir sem eru með sama eða svipuðu orðalagi. Þar er gerð athugasemd við skipulagið í heild sinni, byggingarmagn, umhverfi, mengun og umferð.

Bjarni sagði að þetta mál væri af þeirri stærðargráðu að menn hefðu reiknað með að margar athugasemdir bærust. Þegar frestur til að skila inn athugasemdum væri liðinn yrði farið efnislega yfir þær og málið yrði síðan aftur tekið fyrir í skipulagsráði.

Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er ætlunin að byggja upp í nokkrum áföngum starfsemi Landspítala. Nýbyggingar munu rúma m.a. slysa- og bráðamóttöku, skurðstofur, gjörgæslu og vöknun, myndgreiningu, rannsóknarstofur, legudeildir og sjúkrahótel auk húsnæðis Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans. Með staðfestingu nýs deiliskipulags fellur úr gildi deiliskipulag Landspítalalóðar frá 1976 með síðari breytingum.

Deiliskipulagið var kynnt vorið 2011.

Upplýsingar um deiliskipulagið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert