Endurnýjar ökuskírteini 96 ára

Stefán Þorleifsson á skíðum
Stefán Þorleifsson á skíðum Af vef Norðfirðingafélagsins

„Ég er nú bara að fara að endurnýja ökuskírteinið mitt núna því það er að renna út,“ segir Stefán Þorleifsson, íbúi á Neskaupstað, en hann er fæddur 18. ágúst árið 1916 og hélt því nýverið upp á 96 ára afmæli sitt. 

Stefán, sem er einn fjórtán systkina, kveðst alla tíð hafa verið við góða heilsu og þakkar langlífi sitt því að stunda reglulega hreyfingu í gengum árin.

Þegar mbl.is náði af honum tali var hann nýkominn heim að loknum golfhring.

„Ég var nú bara að koma úr golfi. Það voru margir á vellinum í morgun bæði vegna þess að margir eru í fríi en svo er líka gott veður,“ segir Stefán og bætir við að úrkomulaust og stillt sé í Neskaupstað og því tilvalið að nýta daginn til útiveru. 

Stefán hefur komið víða við á langri ævi og um tíma starfaði hann m.a. sem íþróttakennari til ársins 1955. Segir hann einkar ánægjulegt hve mikil vakning hefur orðið meðal Íslendinga hvað hreyfingu og útivist varðar.

„Þegar ég var að koma af golfvellinum í morgun mætti ég t.d. þremur hlaupahópum og það mætti í raun kalla þetta byltingu í líkamsrækt.“

Lærði að keyra vöruflutningabíl

Stefán segist fyrst hafa fengið bílpróf 26 ára gamall en á þeim tíma var einnig kennt á vöruflutningabíl. „Það var nú líka eitthvað um fólksbíla en þeir sem höfðu réttindi til að kenna hér voru tveir til þrír vörubílstjórar svo maður tók prófið á vörubíl,“ segir Stefán og bætir við að fyrsta bifreiðin hafi þó ekki verið keypt fyrr en þrettán árum síðar eða árið 1955.

Spurður hvort hann muni eftir fyrstu fólksbifreiðunum á götum úti, kveður hann já við. „Fram eftir voru örfáir fólksbílar hér en þegar fyrstu fólksbílarnir komu þá var ég bara krakki, ætli það hafi ekki verið einhvern tímann í byrjun þriðja áratugar,“ segir Stefán en fyrstu bílarnir í bænum voru að sögn hans í eigu tveggja stórkaupmanna.

Bifreiðin er að sögn Stefáns mikið þarfaþing. Þó að hann hafi aldrei verið mikill áhugamaður um bíla segir Stefán það mikilvægt að geta enn notast við bifreiðina á ferðum sínum.

„Þetta eru afskaplega þægileg farartæki og nauðsynleg í nútímaþjóðfélagi. En ég keyri nú aðallega innan Norðfjarðar þó að ég keyri náttúrlega yfir fjallið þegar ég þarf þess og þegar ég fer á skíði á veturna.“

Til þess að endurnýja ökuskírteini sitt þurfti Stefán að gangast undir læknisskoðun þar sem sjón hans var m.a. mæld.

„Augnlæknirinn varð nú svolítið hissa á því að ég þarf ekki að nota gleraugu því ég er nánast með fulla sjón,“ segir Stefán. Vert er að geta þess að ökuskírteini Stefáns gildir nú í eitt ár í senn og mun hann því þurfa að endurnýja það árlega.

Man vel eftir upphafi síðari heimsstyrjaldar

Stefán segir marga atburði eftirminnilega þegar horft sé til baka en tveir koma þó strax upp í huga hans og nefnir hann fyrst snjóflóðin í Neskaupstað sem féllu hinn 20. desember árið 1974 en þá létust tólf manns.

„Það er nokkuð sem skilur eftir sig sár á sálinni. Þetta var mikill hörmungardagur.“

Hinn atburðurinn sem Stefán nefnir átti sér stað í septembermánuði árið 1939 þegar Stefán var 23 ára gamall og staddur úti á sjó.

„Ég var þá á síldveiðiskipi frá Akureyri og við vorum á Grímseyjarsundi. Á þeim tíma höfðu hásetarnir ekkert útvarp, það var aðeins skipstjórinn sem hafði það uppi í brúnni. Áður en við fórum frá landi var ég búinn að heyra að alvarlegra tíðinda væri að vænta svo ég lagði eyrað upp við gluggann hjá skipstjóranum þegar fréttirnar byrjuðu. Ég man enn eftir því sem Chamberlain sagði - Frá deginum í dag eigum við í styrjöld við Þýskaland.“

Margt hefur breyst síðan þessi bifreið ók um götur borgarinnar …
Margt hefur breyst síðan þessi bifreið ók um götur borgarinnar árið 1979. Ólafur K. Magnússon
Arthur Neville Chamberlain, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Arthur Neville Chamberlain, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert