„Sjálfstæðisflokkurinn er hægriöfgaflokkur, hann hefur séns á að breytast á næsta landsfundi og í komandi prófkjörum og gerir það vonandi,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, á Facebook-síðu sinni.
Þar gagnrýnir hann Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að segja að flokkurinn megi ekki verða að íslenskri Teboðshreyfingu að bandarískri fyrirmynd þar sem hún hafi sjálf verið varaformaður hans þegar hann hafi verið gerður að slíkri hreyfingu. Nú vilji hún hins vegar ekki kannast við barnið.
„Það er nefnilega þörf fyrir almennilegan og heiðarlegan flokk sem aðhyllist borgaraleg gildi hér á landi eins og í öðrum löndum, en sá Sjálfstæðisflokkur sem við höfum haft undanfarin tuttugu ár er ekki slíkur flokkur,“ segir Þór.