Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur tæplega tvítugum karlmanni, sem er grunaður um morðið á íslenskum pilti, Kristjáni Hinriki Þórssyni og félaga hans John White III á bílastæði fyrir framan verslun í borginni Tulsa í Oklahoma-ríki í Bandaríkjunum á laugardaginn.
Maðurinn heitir Jermaine Jackson og er 19 ára gamall. Hann var staddur við verslunina QuikTrip aðfaranótt laugardags þegar þá Kristján og White bar þar að. Orðaskipti upphófust á milli Jacksons og White sem enduðu með því að sá fyrrnefndi dró upp byssu og skaut inn í bílinn, samkvæmt frétt fréttavefsins News On 6.
Dave Walker, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Tulsa, sagði í samtali við mbl.is í gær að búist væri við að upptökur úr öryggismyndavélum myndu leiða lögreglu á spor morðingjans.
Jacksons er nú leitað í Tulsa og nágrenni.