Þungur tónn í hjúkrunarfræðingum

Margir tóku til máls á fjölmennum fundi hjúkrunarfræðinga við Landspítalann …
Margir tóku til máls á fjölmennum fundi hjúkrunarfræðinga við Landspítalann Fossvogi og hljóðið var þungt. Mbl.is/Árni Sæberg

„Fólki er misboðið og það var mikill þungi í þeim athugasemdum sem þarna komu fram,“ segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, eftir fund með hjúkrunarfræðingum á Landspítala sem fram fór nú síðdegis, vegna launahækkunar Björns Zoëga, forstjóra LSH.

Einn tekinn fram yfir hina

Þetta var fyrri fundur af tveimur og var hann aðeins haldinn með hjúkrunarfræðingum á LSH í Fossvogi, en á fimmtudag munu hjúkrunarfræðingar LHS við Hringbraut funda. Um 150 manns mættu á fundinn, sem Elsa segir þann fjölmennasta í 9 ár tíð sinni sem formaður félagsins. 

Bæði læknar og hjúkrunarfræðingar hafa brugðist illa við hækkun launa forstjórans upp í 2,3 milljónir króna Elsa segir það fara illa í starfsfólk spítalans að forstjórinn sé einn tekinn út og upp fyrir þann stöðuga niðurskurð sem þar hefur verið boðaður, nú í 4 ár. „Allir hafa lagt sig fram við að ná endum saman og þarna er einn aðili sem er eftirsóttur tekinn fram yfir alla hina sem eru eftirsóttir. Af því að þessi hópur sem þarna var í dag hefur meira og minna unnið í Noregi og er alls óhræddur við að þiggja starfstilboð þaðan.“

Ekki tekist að ljúka kjarasamningum

Gagnvart hjúkrunarfræðingum er ástæða óánægjunnar ekki síst sú að enn hefur ekki tekist að ljúka síðari hluta kjarasamnings í kjölfar þess sem undirritaður var í júní 2011. Sá samningur er miðlægur, en síðan eru s.k. stofnanasamningar gerðir við hverja stofnun þar sem hvert stöðugildi er áætlað. Elsa segir að hvorki hafi gengið né rekið í þeim samningaviðræðum. 

„Samningstímabilið er nú þegar hálfnað þannig að þetta er óásættanleg framganga. Á sama tíma eru gerðar kröfur á hjúkrunarfræðinga um að hlaupa sífellt hraðar, að færri sinni fleiri sjúklingum, að þeir taki á sig verkefni sem aðrar stéttir hafa sinnt og að ekki sé kallað út fyrir þá sem veikjast. Fyrir þetta hefur ekki komið nein umbun heldur frekar á hinn veginn.“

Allir lagt sig fram, ekki bara forstjórinn

Elsa segir að hjúkrunarfræðingar eigi rétt á umbun fyrir sín viðbótarstörf rétt eins og forstjórinn, en Guðbjartur Hannesson skýrði launahækkunina með því að hann sinnti skurðlækningum í auknum mæli samhliða forstjórastarfinu. „Það hafa allir lagt sig fram, ekki bara forstjórinn, við að veita góða og örugga þjónustu samliða alls konar niðurskurðaraðgerðum. En svo er einum aðila umbunað fyrir viðbótarstörf vegna þess að hann er sagður eftirsóttur.“

Samstaðan er mikil meðal hjúkrunarfræðinga að sögn Elsu um að sætta sig ekki við slíka mismunun. Annar fundur verður haldinn á fimmtudag en Elsa segir að það sé svo undir starfsfólki Landspítala sjálfu komið hvort og þá hvernig það bregðist við í framhaldinu. Félagið muni ekki beita sér fyrir þess hönd. 

Hjúkrunarfræðingar þurfa ða hlaupa hraðar og sinna störfum sem aðrar …
Hjúkrunarfræðingar þurfa ða hlaupa hraðar og sinna störfum sem aðrar stéttir sinntu áður, en hafa enga umbun hlotið að sögn Elsu. Mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert