Efnahagslegt sjálfstæði Íslands endurheimt

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, flytur ræðu sína í kvöld.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, flytur ræðu sína í kvöld. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra hóf ræðu sína á Alþingi í kvöld í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra, á því að ræða um það ástand sem skapast hefur einkum á Norðausturlandi í kjölfar óveðursins fyrr í vikunni. Sagði hann að stjórnvöld myndu að gera það sem í valdi þeirra stæði til þess að liðka fyrir úrvinnslu þessara aðstæðna, meðal annars með því að bæta tjón í gegnum Bjargráðasjóð.

Ráðherrann sneri sér næst að því að fjalla um stöðu efnahagsmála Íslands og sagði að tekist hefði að endurheimta tapað efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og að hún stæði nú á eigin fótum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði kallað til, hefði farið af landi brott fyrir ári, Ísland hefði aftur aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum og nyti nú virðingar og fengi athygli út á þann árangur sem náðst hefði.

Þetta hefði þó ekki tekist án fórna og það hefði reynt á þanþolið. Gengið hefði mun betur hér að koma böndum á hallarekstur ríkisins og auka hagvöxt en í öðrum ríkjum sem glímdu við efnahagserfiðleika. Miðað við umræðuna á köflum hér á Íslandi hvort ríkisstjórnir flestallra Evrópuríkja, Bandaríkjanna og svo framvegis væru svona hörmulega lélegar. Veruleikinn væri sá að unnist hefði ótrúlega vel úr grafalvarlegum vanda Íslands.

Mikilvægt hvernig vinnist úr erfiðleikum Evrópu

Steingrímur gerði stöðu efnahagsmála í heiminum og einkum í Evrópu og á evrusvæðinu ennfremur að umfjöllunarefni og sagði það einn mesta skuggann sem félli á annars ágætar framtíðarhorfur Íslands. Miklu skipti fyrir landið hvernig ynnist úr erfiðleikum í Evrópu. Mikilvægt væri að bæði umræða um vanda Evrópu sem og umræða sem Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefði kallað eftir um stöðu mála vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið færu fram á málefnalegum og uppbyggilegum nótum. Það þýddi þó ekki að ekki yrði staðið á rétti Íslendinga til að mynda varðandi fiskveiðihagsmuni.

Þá sagði Steingrímur að eitt mikilvægasta verkefnið nú væri að stuðla að aukinni fjárfestingu enda væri heildarfjárfestingastigið enn lágt í sögulegu samhengi. Eðlilegar skýringar væru hins vegar á því í ljósi efnahagshrunsins, bæði hvað varðaði einkaaðila og hið opinbera, og í raun hefði það verið óumflýjanlegt. Fjárfesting atvinnuveganna hefði hins vegar aukist talsvert hratt undanfarið sem væri mikilvægt fyrir undirliggjandi verðmætasköpun í landinu.

Steingrímur lauk ræðu sinni á því að lýsa þeirri skoðun sinni að aðrir stjórnmálaflokkar og framboð ættu að sameinast um að bjóða Sjálfstæðisflokknum upp á fjögur ár í viðbót hið minnsta til endurhæfingar og sjálfsskoðunar sem enn virtist ekki hafa farið fram og yrðu ennfremur góð við hann, umburðarlynd og skilningsrík. Kannski yrði hann þá stjórntækur aftur og sæmilega víðsýnn flokkur með svolitlu félagslegu ívafi og fær um að bera aftur ábyrgð á efnahagsmálum án þess að stofna þjóðinni í stórhættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka