„Það liggur fyrir að verðlag tannlækna á sinni þjónustu er gríðarlega mismunandi og því höfum við valið að miða endurgreiðslu okkar við tiltekna gjaldskrá,“ segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Hann segir að ekki sé um neina hámarksendurgreiðslu að ræða á tannviðgerðum barna.
„Sjúkratryggingar Íslands eru ekki með samning við tannlækna, en taka engu að síður þátt í kostnaði við þjónustuna.“
Sú gjaldskrá, sem Sjúkratryggingar Íslands miða endurgreiðslu sína við og birt er á vefsíðu SÍ, er í litlu samræmi við verðlag á þjónustu sumra tannlækna, eins og fram hefur komið í fréttum mbl.is. Spurður að því á hverju gjaldskráin sé byggð segir Steingrímur að SÍ hafi upplýsingar um verðskrár tannlækna og þær hafi verið hafðar til hliðsjónar.
Í frétt mbl.is í gær var rætt við foreldra níu ára gamallar stúlku sem greiddu tugþúsundir fyrir tannlæknaþjónustu barnsins. Tannlæknareikningur þeirra var borinn saman við gjaldskrá SÍ og munurinn var umtalsverður.
Gjaldskrá á að vera aðgengileg
Er gjaldskráin á vefsíðu SÍ þá í samræmi við verðskrá einhverra tannlækna? „Já. Það er hún. Við höfum upplýsingar um hvað tannlæknar taka fyrir þjónustu sína og við sjáum að verðlagning þeirra er mjög mismunandi. Þannig að það skiptir mjög miklu máli að fólk kynni sér gjaldskrár og verðlagningu tannlækna,“ segir Steingrímur Ari og vísar til reglna Neytendastofu um verðupplýsingar á þjónustu tannlækna. Þar segir meðal annars að gjaldskrá, sem sýni verð á aðgerðum, skuli liggja frammi á tannlæknastofu.
Núgildandi gjaldskrá tók gildi í sumar, þá eftir sameiginlega vinnu á vegum ráðuneytisins sem leiddi til þess að viðmiðunarverðið í gjaldskránni var hækkað um 50%. Þetta fyrirkomulag gildir þó eingöngu til áramóta. „Þá er tvennt í stöðunni; annaðhvort verður haldið áfram að endurgreiða á grundvelli gjaldskrárinnar eða menn ná samningum,“ segir Steingrímur.