Kristján Hinrik þekkti morðingjann

Jermaine Jackson hefur verið handtekinn fyrir morðið á Kristjáni Hinriki …
Jermaine Jackson hefur verið handtekinn fyrir morðið á Kristjáni Hinriki Þórssyni. Af vefnum Newson6

Lögreglan í Oklahoma hefur enn ekki haft færi á því að yfirheyra Jermaine Jackson, Bandaríkjamanninn unga sem situr í varðhaldi grunaður um morðið á Kristjáni Hinrik Þórssyni og John White. Þeir Jackson og Hinrik þekktust og voru vinir að sögn sumra, en lögreglan telur tengsl þeirra ekki rótina að morðunum.

Ekki verið yfirheyrður ennþá

Jackson var handtekinn í bænum Marianna í Arkansas-ríki, austan við Oklahoma. Rannsóknarlögreglumaðurinn Dave Walker, sem stýrir rannsókn málsins, segir að Jackson hafi klippt á sér hárið til að reyna að breyta útliti sínu og hafi fengið hjálp til að flýja heimaborg sína Tulsa eftir morðið. Að sögn Walker má þakka það upplýsingum frá almenningi auk rannsókn lögreglu að hann fannst. M.a. hafi grunsamleg hegðun Jackson komið upp um hann, án þess að hægt sé að útskýra það nánar á þessu stigi.

Þeir Jackson og Kristján Hinrik voru á svipuðum aldri, 19 og 18 ára gamlir, og þekktust, voru jafnvel vinir að sögn Walkers. Ekki er ljóst hvort Jackson gerði sér grein fyrir því að Kristján Hinrik sat í bílnum þegar hann hóf skothríð.

„Þetta er skráð hjá okkur sem afleiðing deilna, en við höfum ekki getað yfirheyrt Jermaine Jackson ennþá. Hann er í 6 klukkustunda ökufjarlægð frá okkur, en við erum á leið þangað núna og vonumst til þess að komast til botn í málinu. Enn er mörgum spurningum ósvarað, en að minnsta kosti er morðinginn kominn af götunum og það er alltaf jákvætt.“. 

Dauðarefsing ólíkleg

Ungi maðurinn er á sakaskrá, en að sögn Walkers aðeins fyrir smávægilega glæpi. „Það er einhver minniháttar þjófnaður, ekkert sem líkist þessu, ekkert sem benti til þess að hann væri líklegur til að drepa tvo menn.“ Hann segir viðbúið að Jackson verði í varðhaldi þar til réttarhöld yfir honum hefjist, hvenær svo sem það verði. Ólíklegt sé að honum verði sleppt lausum gegn tryggingu. 

„Ég held að hann hafi ekki tök á því að greiða neins konar tryggingu, enda má búast við því að hún hlypi á milljónum. En mér finnst ólíklegt að það verði yfir höfuð inni í myndinni. Hann hefur nú þegar reynt einu sinni að flýja, svo af hverju ættum við að vilja sleppa honum aftur.“

Dauðarefsing er við lýði í Oklahoma og raunar er Oklahoma það ríki Bandaríkjanna þar sem flestar aftökur fara fram miðað við höfðatölu, samkvæmt Wikipedia. Aðspurður segist Walker þó telja ólíklegt að Jackson verði dæmdur til dauða. „Mitt persónulega mat er að þetta mál sé þess eðlis að það uppfylli ekki skilyrðin fyrir dauðarefsingu.“

Dave Walker rannsóknarlögreglumaður hjá morðdeild lögreglunnar í Tulsa.
Dave Walker rannsóknarlögreglumaður hjá morðdeild lögreglunnar í Tulsa. mbl.is
Kristján Hinrik Þórsson.
Kristján Hinrik Þórsson. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert