Leikur að tölum og orðum brauðfæðir engan

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðustól Alþingis í kvöld.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðustól Alþingis í kvöld. mbl.is/Kristinn

„Þess er beðið að Alþingi setji stefnuna á mál sem skipta sköpum fyrir allan þorra almennings. Að hér verði lífi blásið í vinnumarkaðinn, fyrirtækjum verði gert kleift að ráða fleiri í vinnu og hinn vinnandi maður beri meira úr býtum eftir vinnudag sinn en nú er raunin,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í upphafi ræðu sinnar á Alþingi í kvöld í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra eftir að hafa byrjað á að minnast þeirra hamfara sem urðu í kjölfar óveðursins á Norðurlandi fyrr í vikunni.

Þess væri beðið að stjórnvöld létu af skattpíningarstefnu sinni og eltu ekki uppi þær atvinnugreinar sem fælu í sér vaxtarbrodd og legðu á þær þungar byrðar í stað þess að sjá þá möguleika sem fælust í því að efla og hvetja slíkar greinar öllu samfélaginu til hagsbóta. Þess væri einnig beðið að fá að gera upp reikninginn við ríkisstjórnina í kosningunum næsta vor.

„Enginn efast um að það hafi verið markmið ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að skapa störf og vinna vel í þágu þjóðarinnar, finna leiðir út úr vandanum og hefja nýtt endurreisnartímabil. Án vafa hafa þau ætlað að gera sitt besta. Gallinn er bara sá að það dugar ekki til og hvorki leikur að tölum né orðum brauðfæðir nokkurn mann,“ sagði hann.

Samanburðarríkin flest í Evrópu

Bjarni minntist ennfremur á að þau ríki sem Ísland væri gjarnan borið saman við, þegar því væri haldið fram að staðan væri betri hér en annars staðar, væru flest í Evrópusambandinu. Þrátt fyrir það væri það í orði eitt helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar að Ísland gengi í sambandið. Sagði hann ennfremur athyglisvert að forsætisráðherra hefði ekkert minnst á ESB-umsóknina í stefnuræðu sinni.

„Evrópuþingið sendi Íslendingum í dag kaldar kveðjur og hótar viðskiptaþvingunum ef við látum ekki undan í makríldeilunni,“ sagði hann ennfremur og bætti við að undir engum kringumstæðum yrði hagsmunum Íslands fórnað vegna hótana og bolabragða sambandsins. „Í þessum deilum okkar við ESB kristallast sú staðreynd að við eigum ekkert erindi í aðildarviðræður við sambandið.“

Þá sagðist hann að lokum fagna umræðu um virðingu Alþingis og að umgangast ætti þá merku stofnun af virðingu og væntumþykju. Sagðist hann reiðubúinn að ræða leiðir til þess að færa þingið fram á við í þeim efnum til hagsbóta fyrir land og þjóð.

„Ég er aftur á móti ekki tilbúinn til þess að hleypa málum átölulaust í gegn af þeirri ástæðu einni að ríkisstjórninni takist að leggja þau fram fyrr en venjulega. Bætt vinnubrögð að forminu til nægja ekki til að réttlæta mál sem að efni til eru ónýt,“ sagði Bjarni ennfremur.

Ræða Bjarna Benediktssonar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka