„Leitum skynsamlegustu lausnarinnar“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi í kvöld.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi í kvöld. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gerði mismunandi útfærslur á efnahagsmálum að umtalsefni í ræðu sinni í kvöld við stefnuræðu forsætisráðherra. Hann hafnaði því að einhver ein hugmyndafræði byggi yfir öllum svörunum, heldur yrði að leita skynsamlegustu lausnarinnar hverju sinni.

„Að undanförnu hefur farið fram mikil umræða milli stuðningsmanna hægri- og vinstriflokkanna um útfærsluatriði á efnahagsmálum og um það hvort frjálshyggjan eða sósíalisminn séu betur til þess fallin að bæta hag landsmanna,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Sjálfur hef ég þá trú að engin ein hugmyndafræði til hægri eða vinstri hafi öll svörin.Til að ná raunverulegum árangri verðum við að leita skynsamlegustu lausnarinnar á hverjum vanda en jafnframt að hafa óbilandi trú á framtíðinni og sannfæringu fyrir því að Íslandi séu allir vegir færir. Það er kjarni framsóknarstefnunnar!“

Segir ríkisstjórnina halda uppi áróðri

Sigmundur Davíð gerði að umtalsefni „þann mikla áróður sem settur var af stað síðsumars um árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum“ og sagði þann málflutning eflaust koma flestum Íslendingum spánskt fyrir sjónir. Sem dæmi nefndi hann fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um að framlög til velferðarmála hefðu verið aukin, en í reynd hefði verið um að ræða fjölgun þeirra sem þiggja atvinnuleysisbætur.

Hann ræddi þau verkefni sem hann segir bíða Íslendinga á næstu misserum. „ Við viljum öll  reisa við íslenskt efnahags- og atvinnulíf, við viljum öll byggja upp þjóðfélag þar sem enginn fellur í gegnum öryggisnetið og allir hafa jöfn tækifæri, við viljum öll að Ísland rísi á ný upp sem fullgildur þátttakandi í samfélagi þjóða heims.“

Vandinn leysist þegar heimili ná endum saman

„Vandi okkar hverfur ekki bara við að nokkrir hagfræðingar ríkisstjórnarinnar segi efnahagstölur hafa batnað. Vandi íslensku þjóðarinnar er ekki leystur fyrr en almenningur finnur það í sínu daglega lífi, heimili geta náð endum saman um mánaðamót, og aldraðir og öryrkjar geta lifað mannsæmandi og áhyggjulausu lífi,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Við eigum að virða og meta drifkraft og frelsi einstaklingsins til að móta eigið líf en um leið að byggja upp samfélag þar sem enginn er skilinn eftir. Við eigum að berjast fyrir mannréttindum og vera tilbúin að standa fast gegn kúgun og valdníðslu. Þetta eru og verða þau grunngildi sem Framsókn stendur fyrir og samfélag okkar á að hafa að leiðarljósi.“

Ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka