Samþykkja beitingu refsiaðgerða

Makríll.
Makríll.

Evrópuþingið samþykkti á fundi sínum í dag tillögur um að Evrópusambandinu verði heimilað að grípa til refsiaðgerða gegn ríkjum utan sambandsins sem það telur stunda ósjálfbærar fiskveiðar. Sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins hafði áður samþykkt tillögurnar sem fara nú fyrir framkvæmdastjórn sambandsins til staðfestingar.

Í frétt á vef Evrópuþingsins segir að reglurnar eigi að letja Íslendinga og Færeyinga til ofveiða á makríl. Voru tillögurnar samþykktar með 659 atkvæðum gegn 11. Sjö þingmenn voru fjarverandi.

Pat the Cope Gallagher, Evrópuþingmaður frá Írlandi, segir að bregðast þurfi strax við ástandinu í Norður-Atlantshafi. Íslendingar hafi einhliða aukið við kvóta sinn úr 363 tonnum árið 2005 í 147 þúsund tonn í ár.

Samkvæmt tillögunum, sem Evrópuþingið samþykkti í dag, getur Evrópusambandið bannað innflutning á fiski frá þeim ríkjum, sem talin eru stunda ofveiði á fiskistofnum. Fram kemur í frétt á vef Evrópuþingsins að gagnist slíkar aðgerðir ekki verði hugsanlega gripið til þess ráðs að setja löndunarbann á skip frá þeim ríkjum sem refsiaðgerðirnar beinast gegn.

Um er að ræða reglugerðartillögu sem upphaflega kom frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og breytingartillögu við hana sem fram kom innan nefndarinnar en samkvæmt breytingartillögunni verður sambandinu ekki aðeins heimilað að banna útflutning sjávarafurða til ríkja þess úr fiskistofnum sem ekki eru til staðar samningar um heldur öllum sjávarafurðum. Þá er einnig meðal annars opnað á möguleikann á hafnbanni á skip frá ríkjum sem ekki eru talin stunda sjálfbærar veiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert