Tófan ræðst á lömbin

mbl.is

Fé hefur fennt víðar en á Norðausturlandi, en bændur í Skagafirði leita nú fjár sem fennt hefur í Hamraheiði austan Mælifellshnjúks og framundir Gilhagadal. 

„Nokkuð hefur fundist dautt, verst er tófan. Hún ræðst framan í lömbin og rollurnar og étur nasirnar og kjaftinn framan úr þeim. Þarna er mikill snjór,“ segir Guðmundur Hjálmarsson, einn leitarmanna. Bændur á svæðinu hafa leitað í allan dag.

„Þau eru föst í sköflum og hausinn stendur upp úr,“ segir Guðmundur sem er fæddur og uppalinn á þessum slóðum og var kallaður til aðstoðar.

Hefur fundið um 70 rollur

„Ég er búinn að finna um 70 rollur í dag, þetta er stórt og mikið svæði og við höfum verið á vélsleðum hérna í dag,“ segir Guðmundur. „Verið er að leita í Gilhaga og menn eru labbandi á bæjunum hér í kring.“ 

Hann segir að því fé sem hafi fundist á lífi, hafi verið komið á öruggan stað í skjóli frá tófum. Hann segir ekki liggja fyrir hversu margt fé sé á svæðinu. „En það er talsvert ófundið.“

Fjárins hefur verið leitað síðan í morgun og áfram verður leitað fram á kvöld. Síðan verður leit haldið áfram í fyrramálið og verða björgunarsveitir á svæðinu þá fengnar til aðstoðar. „Við höfum verið tveir á vélsleðum og erum með eitt fjórhjól á beltum og notum það m.a. til að ferja féð. Við höfum farið yfir mestallt svæðið,“ segir Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert