Tugmilljóna krafa Byko og Norvik

Aðalmeðferð í meiðyrðamáli sem höfðað var af Byko og Norvik á hendur Múrbúðinni og forsvarsmanni hennar fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Farið er fram á tugi milljóna króna í bætur vegna ummæla í grein forstjóra Múrbúðarinnar sem birtist í Morgunblaðinu 2. júní 2010.

Í greininni sem bar heitið Byggingavörur á líknardeild bankanna sagði Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar: „Móðurfélag Byko er í gjörgæslu hjá Arion banka, með 64 milljarða króna skuld á bakinu. Bankinn ræður því væntanlega öllu um afdrif Byko.“

Þess er krafist að ofangreind ummæli verði dæmd dauð og ómerk en einnig að Baldur og Múrbúðin greiði Byko 11,5 milljónir króna í skaðabætur og tvær milljónir króna í miskabætur. Þá er þess krafist af hálfu Norvik að Baldur og Múrbúðin greiði 33,5 milljónir í skaðabætur og tvær milljónir í miskabætur.

Þegar tekin er með í reikninginn krafa bæði Byko og Norvik um hálfa milljón króna vegna kostnaðar við birtingu niðurstöðunnar í fjölmiðlum er heildarupphæðin kominn upp í fimmtíu milljónir króna.

Segist hafa vitnað í rannsóknarskýrsluna

Í stefnu málsins segir að þegar greinin birtist hafi Norvik, móðurfélag Byko, ekki verið með nein lán eða aðrar skuldbindingar við Arion banka. Engar skuldir hafi þá verið afskrifaðar eða felldar niður í bankanum.

Þá segir að ekki verði séð að ummælin hafi haft annan tilgang en að varpa rýrð á orðspor Byko og viðskiptaheiður félagsins í víðlesnu dagblaði. Brotið sé sérstaklega alvarlegt þar sem Byko er samkeppnisaðili Múrbúðarinnar.

Baldur hefur lítið vilja tjá sig um málið en í samtali við mbl.is í nóvember 2011 sagðist hann ekki hafa gert annað en að greina frá því sem fram kom í rannsóknarskýrslu Alþingis. Hann bætti við að hann sé furðu lostinn yfir bótakröfum enda séu upphæðirnar sem þær hljóða upp á án allra fordæma.

Í viðauka 9 í rannsóknarskýrslunni er að finna yfirlit yfir áhættuskuldbindingar Norvik og tengdra félaga. Þar kemur fram að í heild séu skuldbindingar tæpir 65 milljarðar króna, þar af 35,5 milljarðar hjá Kaupþingi.

Samkvæmt heimildum mbl.is mun Baldur gefa skýrslu við aðalmeðferðina og sömuleiðis Brynja Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Norvik.

Baldur Björnsson framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar.
Baldur Björnsson framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar. Jakob Fannar Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert