Tunnumótmæli við Alþingishúsið

„Tunnumótmæli“ voru við Alþingishúsið í kvöld er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína. Nokkrir tugir manna tóku þátt í mótmælunum, sem fóru friðsamlega fram.

„Þar sem þetta er væntanlega sú síðasta sem verður flutt af munni Jóhönnu Sigurðardóttur þá má búast við því að hún verði með dramatískara móti þetta árið,“ segir á Facebook-síðu aðstandenda mótmælanna.

„Burtséð frá þeirri sundurlyndispólitík sem fram fer innan veggja þinghússins þetta kvöld verðum við að sjá til þess að hvorki forsætisráðherra né aðrir lukkuriddarar þingheima komist upp með það að hæla sér af störfum sínum í þágu okkar almennings með því að vísa til þagnarinnar úti á Austurvelli.“

Fólk var hvatt til að koma með „ómsterka hljómgjafa af öllum stærðum og gerðum“ ásamt ásláttaráhöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert