David Walker, varðstjóri hjá morðdeild lögreglunnar í Tulsa í Oklahoma, segir að lögreglan hafi yfirheyrt Jermaine Jackson, manninn sem grunaður er um morðin á Kristjáni Hinriki Þórssyni og John White. Jackson er enn í haldi í Arkansas og verður hann líklega fluttur til Oklahoma í næstu viku.
Þar bíður Jacksons tvöföld ákæra fyrir morð af fyrstu gráðu, sem er hæsta stig morðs samkvæmt bandarískum lögum, og táknar að morðið hafi verið framið af ráðnum hug. Samkvæmt Walker getur dauðarefsing legið við morði af fyrstu gráðu í Oklahoma, en hann segir að sér þyki ólíklegt að það verði raunin. Líklega eigi Jackson þó yfir höfði sér mjög langa fangelsisvist verði hann fundinn sekur.
Walker segir að ekkert í rannsókninni bendi til þess að Kristján Hinrik og Jackson hafi átt í einhverjum illdeilum sem gætu legið að baki skotárásinni, þó að í ljós hafi komið að þeir hafi þekkst fyrir. Orsaka glæpsins sé líklega ekki að leita í kunningsskap þeirra.