Símalaus í fjallaskála í tæpa viku

Jeppi kanadíska ferðafólksins fyrir utan skála Ferðafélags Akureyrar í Laugafelli.
Jeppi kanadíska ferðafólksins fyrir utan skála Ferðafélags Akureyrar í Laugafelli. Páll Rúnar Traustason

Félögum í Ferðafélagi Akureyrar, sem héldu í eftirlitsferð í skála félagsins í Laugafelli í gær, brá í brún er þangað var komið. Í skálanum var kanadískt ferðafólk, sem hafði leitað þar skjóls fyrir óveðrinu um síðustu helgi og ekki komist á brott vegna ófærðar. Fólkið var símalaust og á vanbúnum bíl og enginn vissi um ferðir þess.

„Skrifuðu SOS í snjóinn“

„Við fórum seinnipartinn í gær í eftirlitsferð upp í skálann. Þegar við fórum að nálgast Laugafell sáum við spor og  þegar við komum í hlaðið sáum við lítinn jeppling. Í snjóinn fyrir utan skálann var búið að skrifa stórt „SOS“, þau höfðu sett endurskinsmerki á fánastöng og sett litríkan dúk á þak hússins,“ segir Páll Rúnar Traustason, annar mannanna sem komu að fólkinu.

Skálinn stendur 20 km suður af botni Eyjafjarðardals og um 15 km norðaustur frá Hofsjökli.

Voru símalaus og gátu ekki látið vita af sér

„Inni í skálanum var kanadískt par, karl og kona, sem höfðu komið þangað á sunnudagskvöldið. Um nóttina brast á vitlaust veður og þau voru símalaus og gátu ekki látið vita af sér. En þau vissu vel hvar þau voru, þetta var vant ferðafólk og ágætlega búið og gerði rétt með að láta fyrirberast í skálanum,“ segir Páll.

Hann segir fólkið hafa verið nokkuð vel haldið, þau hafi verið með vistir og einnig sé matur í skálanum. Þar er líka upphitun og heitt vatn. „En þau voru farin að skammta sér vistir og voru mjög glöð að sjá okkur.“

Misstu af flugfari

Að sögn Páls er óvenjumikill snjór á þessum slóðum núna miðað við árstíma og einungis á færi fólks á breyttum jeppum að komast upp að skálanum.

Fólkið missti af flugfari til síns heimalands sökum þessa, farið var með þau til Akureyrar í morgun og hyggja þau á heimferð á morgun.

Kanadíska ferðafólkið hafði skrifað „SOS“ í snjóinn.
Kanadíska ferðafólkið hafði skrifað „SOS“ í snjóinn. Páll Rúnar Traustason
Mikill snjór er á svæðinu í kringum Laugafell.
Mikill snjór er á svæðinu í kringum Laugafell. Páll Rúnar Traustason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert