Við sprenginguna í íbúðinni í fjölbýlishúsi í Ofanleiti klukkan 11 í morgun rigndi glerbrotum, innanstokksmunum og braki yfir næsta nágrenni, meðal annars á leikvöll við húsið. Ekkert barn var þar við leik, en að sögn sjónarvotta hafði ungt barn nýlega yfirgefið leikvöllinn þegar sprengingin varð.
Sigurbjörn Guðmundsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki liggi fyrir hvað olli sprengingunni og segir fréttir fjölmiðla um að hún hafi verið af völdum gass ekki komnar frá slökkviliðinu.
Íbúi í íbúðinni var fluttur á slysadeild mikið slasaður og illa brenndur eftir sprenginguna, en engin slys urðu á öðrum íbúum. Sprengingin náði í gegnum alla íbúðina og sprungu allflestar rúður hennar.
„Fólk í húsinu er í miklu áfalli, þetta var mjög mikil sprenging og svona hefur ekki gerst í mjög langan tíma,“ segir Sigurbjörn.
Frétt mbl.is: Sprenging í fjölbýlishúsi