Andemariam Teklesenbet Beyene, Erítreubúinn sem fékk græddan nýjan barka í sig í júní í fyrra, segir í samtali við mbl.is að sér líði vel eftir aðgerðina. Enn sé þó fylgst með ástandi hans en allt hafi gengið vel til þessa. Fjallað er um mál hans á fréttavef New York Times í dag.
Aðgerðin sem framkvæmd var á Beyene hefur vakið mikla athygli, en til dæmis hefur verið fjallað um hana í breska læknatímaritinu the Lancet. Beyene er 36 ára Erítreumaður, sem er búsettur hér á landi ásamt fjölskyldu sinni. Hann var nýkominn til landsins þegar það uppgötvaðist að hann var með krabbamein í hálsi. Var Beyene orðinn mjög veikur þegar hann samþykkti að prófa skurðaðgerð sem myndi fela í sér að í hann yrði græddur nýr barki, gerður úr plasti og hans eigin stofnfrumum.
Aðgerðin var framkvæmd á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi hinn 9. júní 2011 og stýrði Paolo Macchiarini aðgerðinni, en Tómas Guðbjartsson, læknir Beyene, tók þátt í henni. Beyene segir að engin vandamál hafi komið upp síðan aðgerðin var. „Við héldum upp á þetta þegar ár var liðið frá þessu í sumar,“ segir Beyene. Komu þá læknar frá Svíþjóð og fleiri löndum á ráðstefnu sem Landspítalinn stóð fyrir.
Í frétt New York Times er fjallað ítarlega um aðgerðina og fjallað um framtíðina í ígræðslum af þessu tagi, þar sem ný gervilíffæri eru ræktuð á rannsóknarstofum tilbúin til ígræðslu. Enn sé þó langt í land áður en hægt verði að gera flóknari líffæri.