Ekkert ákveðið um uppsagnir

Ríkisútvarpið
Ríkisútvarpið mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hélt fund með starfsmönnum Rásar eitt í morgun og þetta var ágætur fundur en á honum leiðrétti ég ákveðinn misskilning,“ segir Páll Magnússon útvarpsstjóri en í síðustu viku fréttu starfsmenn Rásar eitt af hugsanlegum uppsögnum fjögurra til sex starfsmanna sem tilkynna átti á næstunni.

Uppsagnirnar voru sagðar tengjast fyrirhuguðum aðgerðum til frekari hagræðingar í rekstri Ríkisútvarpsins.

Páll segir það alltaf hafa staðið til að kynna í lok þessarar viku með hvaða hætti þær hagræðingarkröfur sem gerðar eru til Rásar eitt yrðu framkvæmdar.

„Og í svoleiðis aðgerðum er ekkert ákveðið fyrr en allt er ákveðið þannig að það verður ljóst í lok þessarar viku hvernig gengið verður fram,“ segir Páll og bendir á að ekki sé krafist mikillar hagræðingar og því verði ekki ráðist í neinar meiriháttar aðgerðir.

Í síðustu viku spurðist út meðal starfsmanna Rásar eitt að fjórir til sex starfsmenn kynnu að missa vinnuna vegna þessa en Páll segir þá tölu vera úr lausu lofti gripna og engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin þar um. 

„Þessi tala fór á flot í síðustu viku en það var sá misskilningur sem ég var að leiðrétta því það liggur engin ákvörðun fyrir um með hvaða hætti þetta verður gert. Þetta var eitt af því sem rætt var en í aðgerðum af þessu tagi liggur það í hlutarins eðli að þangað til allt hefur verið ákveðið er ekkert ákveðið.“ 

Fundurinn í morgun gekk að sögn Páls átakalaust fyrir sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Anna Dóra Gunnarsdóttir: Jamm
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert