Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Austurlands í dag dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa slegið lögreglumann við skyldustörf fyrir utan skemmtistað á Reyðarfirði í október í fyrra.
Maðurinn, sem er 24 ára að aldri, játaði brot sitt skýlaust fyrir dóminum. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur hann tvívegis gengist undir sátt hjá lögreglustjóra vegna brota á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni, í bæði skiptin á árinu 2010. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans nú.