Vægt tekið á ofbeldi gegn lögreglu

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ólga og reiði innan lögreglunnar með það hve vægt virðist vera tekið á ofbeldi gagnvart lögreglumönnum,“ segir formaður Landssambands lögreglumanna. Ofbeldi gegn lögreglu hefur aukist að hans sögn en refsiramminn vannýttur og þeir dómar sem fallið hafa undanfarið of vægir að mati lögreglu.

Lögreglumenn sparkaðir, bitnir og slegnir

Nýjasta dæmið er dómur sem féll í Héraðsdómi Austurlands í gær. Þar var karlmaður dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa kýlt lögreglumann í andlitið fyrir utan skemmtistað. Fleiri sambærilegir dómar hafa fallið undanfarna mánuði.

Í Héraðsdómi Reykjaness þann 22. febrúar, þar sem karlmaður var fundinn sekur um að hafa gefið einum lögreglumanni olnbogaskot í andlit og sparkað í bringu annars lögreglumanns þannig að hann skall með höfuðið utan í vegg og hlaut heilahristing. Fyrir þetta hlaut árásarmaðurinn 4 mánaða skilorðsbundinn dóm.

Daginn áður var annar maður dæmdur í 5 mánaða fangelsi, þar af 3 skilorðsbundna, fyrir að skalla lögreglumann í höfuðið. Þá féll dómur í október 2011 gegn manni sem beit í fingur lögreglumanns þannig að hann hlaut skurð og bitsár. Niðurstaðan var 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Ekki sama dómari og lögreglumaður?

Til samanburðar má nefna dóm sem  nýlega féll í sambærilegu máli í Héraðsdómi Reykjavíkur í júlí. Þá var Börkur Birgisson fundinn sekur um brot gegn valdstjórninni með því að hafa í tvígang kallað héraðsdómara „tussu“ og hrækt í áttina að honum. Hrákinn lenti á skikkju og handarbaki dómara. Börkur var dæmdur í 6 mánaða fangelsi, óskilorðsbundið.

Snorri segir augljóst ósamræmi milli þessara dóma, „Lögreglumenn fá það á tilfinninguna að það sé kannski viðhorf dómstólanna að ofbeldi sé eitthvað sem tilheyri starfinu. Ég get ekki sagt til um það, en ef svo er, þá er það náttúrulega óásættanlegt.“ Hann leggur áherslu á að með þessu sé ekki verið að gagnrýna dóminn sem féll vegna árásarinnar á dómarann, heldur aðeins benda á misræmið. „Það finnst manni í raun bara nokkuð eðlilegur dómur og hefði jafnvel mátt vera þyngri.“

Vaxandi ofbeldi gegn lögreglu

Ofbeldi gegn lögreglumönnum fór vaxandi á tímabilinu 2005-2007 að sögn Snorra og barðist Landssambandið þá fyrir því á tímabilinu að tekið yrði af slíkum málum af festu. Á endanum brást Alþingi við með breytingu á 106. grein almennra hegningarlaga, þannig að refsiramminn var víkkaður og hljóðar nú upp á allt að 8 ára fangelsi. 

„Við héldum að þar með væri komin fram réttarbót, en það virðist hins vegar ekki skila sér í dómaframkvæmd,“ segir Snorri. Refsiramminn sé vannýttur. „Við erum búnir að berjast í þessu um árabil og höfum átt fundi með ríkissaksóknara og innanríkisráðherra þar sem við höfum lagt áherslu á að tekið verði fast á þessum málum. Birtingarmyndin virðist vera sú að það sé ekkert gert og það skapar reiði og óánægju innan lögreglunnar.“

Sendir skilaboð til ofbeldismanna

Aðspurður hvort ofbeldis gegn lögreglu sé enn að aukast segir Snorri það í öllu falli ekki hafa minnkað. „Miðað við þann fjölda sem leitar til lögmanns Landssambandsins þykjumst við merkja aukningu á brotum gegn valdstjórninni og eins fjölgun alvarlegra árása á lögreglumenn.“

Hann segir ítrekaða væga dóma fyrir þessi brot senda slæm skilaboð. „Það sendir jákvæð skilaboð til þeirra sem beita þá ofbeldi sem hafa valdbeitingarheimildir af hálfu ríkisvaldsins. Skilaboð um að það sé vægt tekið á þessum brotum.“ Lögreglumenn munu að sögn Snorra óska eftir nýjum fundi með innanríkisráðuneytinu og saksóknara á næstunni til að ræða málið.  

Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna.
Börkur Birgisson í fylgd lögreglumanns.
Börkur Birgisson í fylgd lögreglumanns. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert