Hátt í þriðjungur íslenskra grunnskólanemenda fékk sérkennslu á síðasta skólaári. Sérkennsluþörfin eykst jafn og þétt. Drengir eru rúm 62% þeirra sem fá sérkennslu og þurftu 33,6% allra drengja á grunnskólaaldri á sérkennslu að halda skólaárið 2011-2012. Sérkennsluþörf stúlkna hefur einnig aukist, en rúm 21% stúlkna voru í sérkennslu. Mest var sérkennsluþörfin í 4. bekk, eða 30,4% árgangsins.
Þetta sýna tölur Hagstofu Íslands. Með sérkennslu er bæði átt við stuðning inni í bekk og í námsveri.
Í grunnskólalögum segir að tryggja beri nemendum námsaðstoð við hæfi. Hagstofa Íslands hefur safnað gögnum um sérkennslu í grunnskólum frá árinu 2004 og birti tölur frá síðasta skólaári nú í morgun. Hæsta hlutfallið er yfirleitt í 4. eða 5. bekk og samkvæmt tölum Hagstofunnar minnkar sérkennsluþörfin nokkuð er komið er upp á unglingastig
Sjá má að hlutfall þeirra grunnskólanemenda sem fá sérkennslu hefur farið hækkandi jafnt og þétt undanfarin ár. Árið 1995 þurfti 20% grunnskólanemenda á sérkennslu að halda samkvæmt svari þáverandi menntamálaráðherra við fyrirspurn á þingi.
Sú hugmyndafræði, sem íslenskt skólastarf grundvallast á hefur verið kölluð „Skóli án aðgreiningar” og felst í stuttu máli í því að öll börn eiga rétt á að ganga í sinn hverfisskóla burtséð frá því hvort þau eru með sérþarfir eða fatlanir af einhverju tagi.
Þetta fyrirkomulag hefur verið nokkuð umdeilt, ekki síst meðal grunnskólakennara sem hafa bent á að til þess að hægt sé að framfylgja þessari hugmyndafræði sem skyldi, þurfi meira fjármagn inn í skólana. Könnun sem nýlega var gerð á vegum Félags grunnskólakennara í sumar sýnir að stór hluti þeirra hefur neikvætt viðhorf til þessarar hugmyndafræði. Meðal þess sem þessi hugmyndafræði hefur leitt til er að hér á landi eru talsvert færri nemendur í sérskólum og sérdeildum en í mörgum öðrum löndum.
Eftir því sem næst verður komist ákveða einstakir skólar eða sveitarfélög hvernig sérkennslu einstakra nemenda eða nemendahópa er háttað, en samkvæmt upplýsingum frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur ráðuneytið lítil afskipti af framkvæmd þessa málaflokks. Skólar fá fjármagn til sérkennslu, sem ákvarðast af nemendafjölda og einnig fá þeir stundum framlög vegna einstakra nemenda.
Algengast er að sérkennslustundum sé varið í stærðfræði og aðstoð í íslensku. Aðrir þættir sem lögð er áhersla á eru m.a. félagsfærni, hreyfifærni, hegðunarmótun, tungumál og almennur stuðningur við lesgreinar eins og samfélagsfræði og náttúrufræði á eldri stigum.
Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga liggur heildarkostnaður á landsvísu við sérkennslu ekki fyrir, því erfitt sé að skilgreina kostnað við þennan málaflokk sérstaklega.
Í fjárhagsáætlunum stærstu sveitarfélaga landsins virðist þessi gjaldaliður ekki tekinn sérstaklega út, nema í Reykjavík. En gera má ráð fyrir að kostnaðurinn hafi aukist verulega vegna fjölgunar barna í sérkennslu.
Fjárframlög stærsta sveitarfélags landsins, Reykjavíkurborgar vegna sérkennslu í leik- og grunnskólum hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Frá árinu 2004 hafa framlög til almennrar sérkennslu í grunnskólunum aukist um 67% og til sérkennslu vegna einstaklingsúthlutana, sem eru ýmsar fatlanir, um 113%.
Í ár er gert ráð fyrir að heildarútgjöld vegna sérkennslu í grunnskólum nemi 1.300,287 milljónum króna. Til samanburðar námu heildarútgjöld vegna sama málaflokks á árinu 2004 658,811 milljónum. Alls er úthlutað fjármagni til sérkennslu sem um fjórðungur nemenda í almennum grunnskólum nýtur eða 25,8%.
Auk þessa eru starfræktir tveir sérskólar í borginni, fjórar sérdeildir fyrir nemendur með einhverfu og Táknmálssvið í Hlíðaskóla.
Ef gert er ráð fyrir því að sérkennsluþörf sé sú sama í öðrum sveitarfélögum á landinu og að kostnaður á hvern og einn nemanda sé sá sami og í Reykjavík, þá væri kostnaðurinn rúmlega 2,1 milljarður á landsvísu.
„Við erum með þannig kerfi að grunnskólinn er fyrir alla nemendur. Mjög fáir fara í sérskóla og margir nemendur eru með ýmis konar greiningar og fá stuðning í kjölfarið,” segir Jóhanna Einarsdóttir, lektor við námsbraut í sérkennslu í kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
„Það er ljóst að nemendum með greiningar hefur fjölgað og það er ekkert alltaf til góðs. Ýmsir aðilar eru að greina börn, en stundum þyrfti að skoða skólastofuna í heild og kennsluhættina. Hvernig hægt sé að koma til móts við öll börnin í skólastofunni. En auðvitað er alltaf einhver hópur sem þarf einstaklingsbundna kennslu,” segir Jóhanna.
„Reyndar er einn hópur barna vangreindur en það eru börn með málþroskafrávik. Þau eiga oft í erfiðleikum með lestur og lesskilning og sýna erfiða hegðun í skólastofunni vegna þess að þau skilja ekki til hvers er ætlast. Ég held að þau greinist oft síðar með athyglisbrest eða ofvirkni eða lestrarerfiðleika en grunnvandinn er ekki skoðaður. Síðan eru mörg börn sem eru tví- eða þrítyngd og eiga í miklum erfiðleikum með að læra íslensku en það er nauðsynlegt að skoða þann hóp sérstaklega og hvernig hægt er að búa þau betur undir líf í íslensku samfélagi”
Þegar tölur nágrannalandanna um sérkennslu eru skoðaðar horfir dæmið nokkuð öðru vísi við. 21,7% grunnskólanemenda í Finnlandi voru í sérkennslu á þar síðasta skólaári, í Danmörku fengu 11% grunnskólanemenda sérkennslu á síðasta ári og 8,6% í Noregi. Nemendur sem ganga í sérskóla eru inni í þessum tölum og þær eru fengnar hjá hagstofum viðkomandi landa.
Í því ljósi vaknar sú spurning hvort sérkennsluúrræðið sé notað um of. „Það er erfitt að segja það, en það er ljóst að við erum með talsvert hærra hlutfall en margar aðrar vestrænar þjóðir,” segir Jóhanna. „Til dæmis er hlutfallið í Danmörku og Bandaríkjunum um og undir 10 -15%. Sérkennslan ætti að vera hærri hlutfallslega á leikskólaaldri en minnka eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu.”
Strákar eru meirihluti þeirra sem eru í sérkennslu, en tölur sýna að tæp 34% allra drengja á grunnskólaaldri voru í sérkennslu á síðasta skólaári Hver er ástæðan fyrir því?
„Rannsóknir sýna að strákar eru með ívið slakari málþroska en stelpur við upphaf skólagöngu og eru þess vegna í aukinni áhættu með að eiga í erfiðleikum með að læra að lesa. En þetta réttlætir ekki svona mikinn mun. Ég held að margar stelpur þyrftu meiri námsaðstoð, en fái hana ekki vegna þess að þær sitja hljóðar úti í horni og eru reyna sitt besta,” segir Jóhanna.
Fyrstu tölur sem Hagstofa Íslands birti um sérkennslu voru fyrir skólaárið 2004-2005. Þá fékk 17,3% nemenda sem það árið voru í 1. bekk sérkennslu. Ef sá árgangur er skoðaður áfram, má sjá að ekkert dregur úr þörfinni fyrir sérkennslu, heldur eykst hlutfallið jafnt og þétt. Á síðasta skólaári var þessi árgangur kominn í 8. bekk og þá þurfti 24,8 % þeirra á sérkennslu að halda.
Sama máli gildir um aðra árganga sem skoðaðir eru; hlutfall þeirra sem eru í sérkennslu minnkar ekki með árunum. Sú spurning vaknar hvort árangur sérkennslu hafi einhverntímann verið metinn hér á landi.
Jóhanna segist ekki vita til þess, en segir að fyllsta ástæða væri til slíkrar rannsóknar. „Börn ættu ekki að vera í sérkennslu nema að hún bæti líðan þeirra og auki námsárangur eða sé þeim til góðs á einhvern hátt. Sérkennslan á að leiða til þess að börnin taki meiri framförum en þau hefðu gert án hennar. Eitt sem mætti kannski skoða er menntun þeirra sem eru að sinna sérkennslunni og hvort að bætt menntun þeirra sem sinna kennslu barnanna myndi skila sparnaði.”