Baldur gerir athugasemdir við Kastljós

Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Baldur Guðlaugsson, lögfræðingur hjá Lex, hefur sent frá sér athugasemdir vegna fréttar í Kastljósi í gærkvöldi þar sem fjallað var um sölu Baldurs á íbúðabréfum í mars sl.

„Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var fjallað um það að undirritaður hefði selt íbúðarbréf í mars sl., nokkrum dögum áður en gerðar voru breytingar á lögum um gjaldeyrismál sem þrengdu heimildir erlendra eigenda slíkra bréfa til að fá gjaldeyrisyfirfærslu fyrir afborgunum og vöxtum af bréfunum. Var látið að því liggja að undirritaður hefði vegna fyrri starfa í stjórnarráðinu haft vitneskju um að umræddar lagabreytingar væru í  farvatninu.

Af þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram :

1. Ég lét af störfum í stjórnarráðinu á árinu 2009 og hef ekki frá þeim tíma haft neinn aðgang að upplýsingum um þau mál sem á hverjum tíma eru til vinnslu í stjórnarráðinu eða annars staðar í stjórnsýslunni . Hef ég hvorki  leitað eftir slíkum upplýsingum né þær verið látnar mér  í té.  Gildir það jafnt um breytingar á lögum  gjaldeyrimál sem önnur mál. Mér var því með öllu ókunnugt um að til stæði að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum sem þrengdu gjaldeyrisyfirfærsluheimildir erlendra eigenda íbúðabréfa.

2.  Ástæða þess að ég ákvað að selja íbúðabréf sem ég átti í flokki HFF 14 var ósköp einföld.  Þessi bréf höfðu hækkað mjög í verði á fyrstu mánuðum þessa árs, að því er fram hafði komið vegna áhuga erlendra krónueigenda á að eignast þau af þeim ástæðum sem að framan greinir. Umrædd íbúðabréf eru með afborgunum tvisvar á ári og lokagjalddaga á árinu 2014.  Segir sig sjálft að eftirstöðvar bréfanna - og þar með andlag viðskipta með bréfin - lækkar  eftir því sem búið er að greiða fleiri afborganir af bréfunum og nær dregur lokagjalddaga þeirra. Ég  ákvað því að selja íbúðabréf sem ég átti í flokki HFF 14.  Þar sem fyrir lá að ég myndi hefja nýjan kafla í lífinu sunnudaginn 11. mars sl.  lagði ég áherslu á að ljúka sölunni fyrir þann tíma. Hafði ég fyrst samband við verðbréfafyrirtæki um söluna  um miðbik vikunnar á undan. Viðskipti komust síðan á föstudaginn 9. mars. Tímasetning tilkynningar verðbréfafyrirtækisins sem annaðist viðskipin til Kauphallar þann dag um viðskiptin er mér hins vegar  með öllu óviðkomandi. Rétt er að taka fram að það sem fram kom í umfjöllun Kastljóss um söluverð umræddra bréfa er rangt. Söluverð bréfanna var miklum mun lægra.

3. Mér er ekki kunnugt um að umrædd viðskipti eða önnur sem fram fóru á þessum tíma sæti  sérstakri rannsókn. Það á hins vegar að vera  sjálfsagður  hluti af verkefnum  Kauphallar og Fjármálaeftirlits að kanna hvort eitthvað telst óeðlilegt við viðskipti á verðbréfamarkaði  sem eiga sér stað í aðdraganda lagabreytinga sem áhrif geta haft á verðmyndun á markaði. Vonandi hefur það verið gert í þessu tilviki sem öðrum.

Ég mun ekki tjá mig frekar um þetta mál,“ segir ennfremur í athugasemd sem Baldur hefur sent frá sér vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert