Endurgreiða meira vegna kvikmyndagerðar

Kvikmyndagerð er í stórsókn á Íslandi.
Kvikmyndagerð er í stórsókn á Íslandi. Morgunblaðið/Eggert

Samtals er óskað eftir 545 milljóna króna hækkun á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram á Alþingi í dag.

Í fyrsta lagi er óskað eftir 400 m.kr. fjárheimild til að standa við skuldbindingar vegna endurgreiðslu á kostnaði við kvikmyndaverkefni sem áætlað er að lokið verði á árinu 2012.

Um er að ræða endurgreiðslu vegna verkefna sem klárast munu á þessu ári og hafa fengið samþykki um endurgreiðslur á fyrri hluta ársins sem vænst er að verði greiddar út á yfirstandandi ári.

Í öðru lagi er óskað eftir hækkun í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 18. maí 2012 um að veita 145 m.kr. viðbótarframlag til verkefnisins til þess að gera upp skuldbindingar frá fyrra ári. Fjárheimild til endurgreiðslna vegna kvikmynda á árinu 2012 nemur 400 m.kr. Sú fjárheimild var einvörðungu ætluð til að greiða skuldbindingar sem mynduðust á árinu 2011 og var miðað við áætlun iðnaðarráðuneytisins í nóvember 2011. Í reynd urðu þessar skuldbindingar vegna ársins 2011 540 m.kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert