Frestað út af lifrarpylsum

Hundasýningin fer fram á morgun að Völuteig 6 í Mosfellsbæ
Hundasýningin fer fram á morgun að Völuteig 6 í Mosfellsbæ Sigurgeir Sigurðsson

Hundasýningu hundaræktunarfélagsins Rex sem átti að vera í reiðhöll Gusts í Kópavogi í dag var frestað vegna gruns um að eitraðri lifrarpylsu hefði verið dreift á sýningarsvæðinu. Lifrarpylsukeppir lágu á víð og dreif inni í sýningarsalnum og fyrir utan húsnæðið þegar forsvarsmenn félagsins mættu á svæðið í morgun til að undirbúa sýninguna.

„Ég get staðfest sjálfur að eitthvað hafði verið sett í lifrarpylsurnar sem við vitum ekki hvað er, það fór ekkert á milli mála,“ segir Ásgeir Guðmundsson formaður hundaræktunarfélagsins Rex. Engir hundar voru mættir á svæðið þegar málið uppgötvaðist í morgun.

Ásgeir vill brýna fyrir fólki að vera ekki með dýr né lítil börn við reiðhöllina ef vera skyldi að einhverjir molar skyldu enn vera við húsið. Hundasýningin fer fram á morgun í öðru húsnæði, að Völuteig 6 í Mosfellsbæ. Ásgeir segir forsvarsmenn Rex ekki hafa neinn grunaðan um verknaðinn. „Hundabransinn er eins og hann er, hann getur verið ansi öfgafullur á köflum en við höfum engan grunaðan,“ segir Ásgeir. Lögregla var kölluð til og lifrarpylsan er í hennar vörslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert