Undirbýr málsókn gegn Björgólfi

Vilhjálmur Bjarnason, aðjunkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Vilhjálmur Bjarnason, aðjunkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir og fyrrverandi hluthafi í Landsbankanum, hefur óskað eftir við Héraðsdóm Reykjavíkur að honum verði heimilað að leita sönnunargagna með vitnaleiðslum, en Vilhjálmur íhugar að höfða bótamál á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni.

Í bréfinu kemur fram að Vilhjálmur hafi í samstarfi við Ólaf Kristinsson hdl. safnað upplýsingum um Landsbankann í þeim tilgangi að undirbúa mögulega hópmálssókn á hendur fyrrverandi eigendum bankans, þ.e.a.s. „reynast gögn málsins upplýsa um saknæma og bótaskylda háttsemi þeirra“. Nú þegar hafa 350 fyrrverandi hluthafar í Landsbankanum lýst stuðningi og vilja til þátttöku.

Vill fá að yfirheyra 17 vitni

Áður en hægt er að taka ákvörðun um hópmálsókn vill Vilhjálmur fá heimild héraðsdóms til að leita sönnunar fyrir dómi með vitnaleiðslum um öflun skjala eða annarra sýnilegra sönnunargagna sem geta ráðið úrslitum um hvort hann láti verða af málshöfðun. Hann vísar þar til 2. málsliðar 77. gr. laga um meðferð einkamála.

Lögmaður Vilhjálms hefur óskað eftir að 17 nafngreindir einstaklingar komi fyrir dóm og gefi skýrslu. Þetta eru m.a. fyrrverandi stjórnendur og aðaleigendur Landsbankans og forsvarsmenn félaga sem tengjast bankanum og eigendum hans.

Vilhjálmur rekur í greinargerð til dómsins upplýsingar um eignarhald á Landsbankanum, en hann telur ástæðu til að ætla að reynt hafi verið að tengja ekki saman aðila sem hefðu með réttu átt að vera skilgreindir tengdir aðilar. Með þessum hætti hafi áhættuskuldbindingar gagnvart Björgólfi Thor numið a.m.k. 51,3 milljarðar sem nam á árinu 2006 49,7% af CAD-eigin fé bankans.

Vilhjálmur telur að gögn gefi vísbendingar um að stjórnendur Landsbankans og Björgólfur Thor hafi í sameiningu lagt á ráðin um það með hvaða hætti mætti víkja sér undan eða komast framhjá reglum um stórar áhættuskuldbindingar vegna útlána Landsbankans til Björgólfs Thors og tengdra félaga.

„Enginn vafi leikur á því að beiðandi [Vilhjálmur] sem hluthafi í Landsbankanum beið tjón við fall bankans. Beiðandi telur að aðaleigendur Landsbankans, feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson, hafi í gegnum eignarhaldsfélagið Samson haft óeðlileg áhrif á starfsemi bankans og með skipulögðum og ólögmætum hætti notað þau áhrif til þess að leyna yfirráðum þeirra yfir Landbanka Íslands hf. og veita lán til Björgólfs Thors og félaga í hans eigum umfram heimildir.“

Vilhjálmur telur að áður en hann geti tekið ákvörðun um hvort höfða eigi bótamál þurfi að rannsaka samskipti milli stjórnar og stjórnenda bankans við aðaleigendur bankans, endurskoðendur og Fjármálaeftirlitið og „hvernig það hafi komið til að upplýsingar um raunverulegt eignarhald bankans hafi verið jafn óljóst og gögn gefa til kynna“.

Björgólfur Guðmundsson, Magnús Þorsteinsson og Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Guðmundsson, Magnús Þorsteinsson og Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert