Hart var sótt að Sveini Arasyni ríkisendurskoðanda á sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem lauk rétt upp úr hádegi. Fram kom að ekkert mál hafi verið jafn lengi í vinnslu hjá Ríkisendurskoðun og Sveinn segir viðbúið að traust skerðist vegna málsins.
Nefndarmenn töluðu m.a. um að töfin sem hefur orðið á þvi skýrsla um kaup á bókhaldskerfi ríkisins hafi borist alþingi sé mesta klúður í opinberri stjórnsýslu landsins frá upphafi og spurt var hvort nauðsynlegt væri að hefja sjálfstæða rannsókn á kaupum á bókhaldskerfinu. Fram kom að engin skýrsla hafi verið jafn lengi í vinnslu hjá Ríkisendurskoðun og Sveinn segir viðbúið að stofnunin bíði álitshnekki vegna málsins.
Sveinn þvertók fyrir að hafa haldið leynd yfir málinu og vísaði til þess að ekki væri hefð fyrir því að birta alþingi gögn í rannsókn sem enn væri í gangi. Hann hefur verið ríkisendurskoðandi frá miðju ári 2008 og segir að margt hafi spilað inn í að niðurstöður rannsóknarinnar hafi ekki verið notaðar til athugasemda, þar á meðal að uppfærsla hefði verið gerð á kerfinu árið 2010 og eðli reksturs tölvukerfa væri slíkt að erfitt væri að setja lokapunkt við úttekt á rekstrinum.