Stjórn Samtaka mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja (SMK) mótmælir harðlega fyrirhugaðri 800 milljón króna hækkun á vörugjöldum á matvæli sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórninni.
„Vörugjöldin eiga að beinast að sykri í matvælum og eru réttlætt með vísan til manneldissjónarmiða og aðgerðum gegn offitu. Litlar líkur eru á að hækkun vörugjalda á sykraðar vörur hafi áhrif á heilsu- eða holdafar landsmanna.
Hækkun vörugjalda á matvæli um 800 milljónir á ári skerðir hins vegar kjör landsmanna á tvennan hátt, annars vegar með hærra vöruverði og hins vegar aukinni verðbólgu sem leiðir til hærri greiðslubyrði af lánum. Stjórn SMK skorar á stjórnvöld að draga hugmyndir um hækkun vörugjalda á matvæli til baka.“