Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að eðlilegt væri að starfsmenn opinberra stofnana gætu látið vita af því ef eitthvað misjafnt væri í gangi innan þeirra. Tryggja yrði réttindi slíkra einstaklinga.
Tilefni ummælanna eru drög Ríkisendurskoðunar að skýrslu um bókhaldskerfi fyrir íslenska ríkið sem upphaflega átti að kosta 130 milljónir fyrir rúmum áratug en kostnaðurinn var kominn í um fjóra milljarða króna árið 2009.
Skýrslunni hafði hins vegar ekki verið komið til Alþingis og vissu þingmenn ekki af henni fyrr en í kjölfar þess að henni var lekið til Kastljóssins sem fjallaði um hana fyrr í þessari viku.
Róbert sagist ennfremur hafa unnið að tillögu í morgun að því að sjálfstæð rannsókn færi fram á málinu.