Ekki var talið verjandi að velja SAP-kerfi Nýherja fram yfir Oracle-kerfi Skýrr í útboði á fjárhags- og mannauðakerfi ríkisins árið 2000 vegna kostnaðarmunar á tilboðum fyrirtækjanna. Þetta kom fram í máli Gunnars H. Hall, fjársýslustjóra ríkisins, á fundi með fjárlaganefnd Alþingis nú fyrir stundu. Tilboð Nýherja var um 30% dýrara en tilboð Skýrr.
Fjársýslan óskaði eftir fundi með nefndinni vegna gagnrýni sem komið hefur fram á kostnað og öryggi tölvukerfis sem ríkið keypti af Skýrr fyrir rúmum áratug í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2009.
Gunnar hefur farið yfir þau atriði sem gagnrýnd hafa verið og lagði mikla áherslu á að þær 160 milljónir sem haldið hefði fram að kerfið hefði átt að kosta hefði aðeins verið vegna undirbúnings þess. Alltaf hefði verið sótt um fjárheimildir til Alþingis vegna kerfisins síðan og stofnunin hefði nánast alltaf verið innan fjárheimilda á þeim tíma.