Svaraði Jóhönnu um Oracle-kerfið 2004

Fjallað var um Oracle-kerfið á Alþingi árið 2004.
Fjallað var um Oracle-kerfið á Alþingi árið 2004. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde fjármálaráðherra gerði Alþingi árið 2004 ítarlega grein fyrir kostnaði sem þá þegar hafði fallið til vegna kaupa og innleiðingar á Oracle-kerfinu. Þetta gerði hann í skriflegu svari við fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur.

Jóhanna spurði út í kostnað við kerfið, bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað og hvort hann hefði verið í samræmi við áætlun. Fram kemur í svarinu að heildarkostnaður til ársloka 2003 hafi numið 1.536 milljónum kr. en fjárheimildir námu 1.585 milljónum kr.

„Útboð á nýju fjárhags- og starfsmannakerfi átti sér ekkert fordæmi og voru því engar reynslutölur tiltækar til að styðjast við. Við gerð fjárlaga fyrir árið 2001 var sett fram fjárlagabeiðni sem byggðist á áætlun Fjársýslunnar um kostnað við innleiðingu. Þar sem fjárlög komu fram á undan útboði þótti ekki rétt að upplýsa bjóðendur um hvað ríkið gerði ráð fyrir að kerfið kostaði. Því var ákveðið að setja fram hógværa fjárhæð í fjárlögum,“ segir í svarinu.

Í svari fjármálaráðherra segir að búast megi við að rekstur kerfisins og viðhaldssamningur muni kosta árlega um 200 milljónir fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir. „Til viðbótar þarf að gera ráð fyrir frekari þróun og uppsetningu á nýjum útgáfum. Kostnaður við það fer að verulegu leyti eftir því hversu mikið af nýjungum í kerfinu ríkið óskar eftir að taka í notkun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert