Treystir ekki Ríkisendurskoðun

Fjárlaganefnd fjallar um fjárlagafrumvarpið og fjáraukalagafrumvörp.
Fjárlaganefnd fjallar um fjárlagafrumvarpið og fjáraukalagafrumvörp. mbl.is/Ómar

Meirihluti fjárlaganefndar samþykkti á fundi dag að láta Ríkisendurskoðun ekki fá frumvarp um fjáraukalög til umsagnar. Björn Valur Gíslason, formaður nefndarinnar, segir að það ríki ekki traust á milli nefndarinnar og Ríkisendurskoðunar og við þær aðstæður sé ekki rétt að leita umsagnar stofnunarinnar.

„Það ríkir ekkert traust milli þings og Ríkisendurskoðunar og við sjáum því ekki ástæðu til að leita umsagnar Ríkisendurskoðunar,“ segir Björn Valur.

Ríkisendurskoðun hefur setið undir gagnrýni vegna vinnu við skýrslu um kaup ríkisins á nýju fjárhags- og bókhaldskerfi, en skýrslunni hefur enn ekki verið skilað.

„Þessi ákvörðun hefur ekkert með innihald skýrslunnar að gera. Þetta snýst um það vinnulag að hafa ekki upplýst þingið um það sem m.a. kemur fram í þessum skýrsludrögum fyrr en mörgum árum síðar, þrátt fyrir að gengið hafi verið eftir því af hálfu þingmanna. Við höfum ekki fengið viðhlítandi skýringar á því og meðan svo er sjáum við ekki ástæðu til að leita umsagnar stofnunarinnar á þessu né öðru,“ segir Björn Valur.

Ríkisendurskoðun er stofnun sem heyrir beint undir Alþingi. Stofnunin endurskoðar ríkisreikning og reikninga ríkisaðila, hefur eftirlit með og „stuðlar að umbótum á fjármálastjórn ríkisins og nýtingu almannafjár,“ eins og segir á heimasíðu stofnunarinnar um hlutverk hennar. Hún gerir grein fyrir niðurstöðum endurskoðunar og úttekta í skýrslum sem sendar eru Alþingi.

Björn Valur segir að það sé ekki gott þegar það ríki vantraust milli þingsins og Ríkisendurskoðunar. „Þetta er grafalvarlegt mál ef það ríkir ekki traust á milli þingsins og undirstofnana þess.“

Hvaða leið sér þú til að bæta úr þessu?

„Ég ætla að fela forsætisnefnd þingsins það. Ríkisendurskoðun heyrir beint undir forsætisnefnd þingsins. Ég ætlast til þess að nefndin komi saman sem allra fyrst og leiti lausna á þessu,“ sagði Björn Valur. Hann vildi ekki svara því hvort að það þyrftu að verða einhverjar breytingar hjá Ríkisendurskoðun til að hægt væri að skapa á ný traust á milli þingsins og stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka