Keypti endurskoðunarþjónustu fyrir 260 milljónir

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.

Ríkisendurskoðun keypti endurskoðunarþjónustu og aðra þjónustu af fjórum stærstu endurskoðunarfyrirtækjum landsins fyrir samtals um 260 milljónir króna á tímabilinu 2004–2011. Nýlega efndi stofnunin til örútboðs á hluta þessara verkefna og rennur frestur til að skila tilboðum út hinn 23. október nk.

Samkvæmt lögum annast Ríkisendurskoðun endurskoðun ríkisreiknings og aðila sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Stofnunin útvistar hluta af þessum verkefnum til endurskoðunarfyrirtækja. Á tímabilinu 2004–2011 greiddi stofnunin samtals um 260 milljónir króna til fjögurra stærstu endurskoðunarfyrirtækja landsins (PwC hf., KPMG hf., Ernst & Young ehf. og Deloitte hf.)  vegna slíkra verkefna og annarrar þjónustu. Það jafngildir um 32,5 milljónum króna að meðaltali á ári. Önnur þjónusta sem keypt var af fyrirtækjunum var m.a ýmis ráðgjafarþjónusta og námskeið.

Í fréttatilkynningu segir að þessi viðskipti grundvallist á samningum sem stofnunin gerði við fyrirtækin á árunum 2007 og 2008. Þeir giltu út árið 2009 en voru þá framlengdir til ársins 2011. Nýlega efndi stofnunin til svokallaðs örútboðs á hluta þessara verkefna. Í slíkum útboðum geta fyrirtæki sem eiga aðild að rammasamningum Ríkiskaupa boðið í viðkomandi verkefni. Frestur til að skila inn tilboðum rennur út 23. október nk. Gert er ráð fyrir að nýir samningar gildi um endurskoðun vegna áranna 2013–17. Á næstunni verða fleiri verkefni af þessu tagi boðin út.


Þess má geta að Ríkisendurskoðun býður einnig út endurskoðun sjóða og hlutafélaga í eigu ríkisins en þessir aðilar greiða sjálfir fyrir endurskoðunina. Þannig bauð stofnunin t.d. út endurskoðun á nýju bönkunum svokölluðu sem reistir voru á grunni þeirra banka sem féllu haustið 2008. Á grundvelli útboðsins, sem fór fram haustið 2008, var samið við þrjú af stóru endurskoðunarfyrirtækjunum (KPMG, Ernst&Young og Deloitte). Ríkisendurskoðun greiddi fyrir endurskoðun bankanna en endurkrafði þá síðan um þær greiðslur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert