Bifreið hvarf ofan í Jökulsárlón

Bílinn rekur út úr Jökulsárláni í gær.
Bílinn rekur út úr Jökulsárláni í gær. Ljósmynd/Anne Steinbrenner

Fólksbifreið rann ofan í Jökulsárlón fyrir skömmu en henni hafði verið lagt á bílastæði skammt frá. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Höfn urðu engin slys á fólki og bifreiðin var mannlaus þegar atvikið átti sér stað.

Lögreglu- og björgunarsveitamenn frá Höfn eru á vettvangi til þess að meta aðstæður og ræða við vitni en bifreiðin mun hafa sokkið á mjög skömmum tíma eftir að út í lónið var komið.

„Eins og sakir standa eru engar aðstæður til þess að leita að bifreiðinni en menn ætla að sjá til á fallaskiptum hvort hægt verði að ná bílnum upp ef það kemur upp olía,“ segir lögreglumaður í samtali við mbl.is en mjög djúpt er á því svæði sem bifreiðin fór ofan í lónið og straumhart.

Segir hann ljóst að bifreiðin sé á miklu dýpi því ekki sést til hennar. 

Bifreiðin er í eigu bílaleigu og var eldri kona frá Bandaríkjunum með hana á leigu. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var farangur konunnar í bílnum er atvikið átti sér stað en konan mun vera á leið til Reykjavíkur í samfloti með öðrum ferðamönnum. 

Ekki er vitað hvað olli því að bifreiðin rann af stað en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu má gera ráð fyrir því að illa hafi verið gengið frá henni á bílastæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka