Ekkert bólar á bifreiðinni

Bílinn rekur út úr Jökulsárlóni.
Bílinn rekur út úr Jökulsárlóni. Ljósmynd/Anne Steinbrenner

Ekkert bólar á fólksbifreiðinni sem rann skyndilega ofan í Jökulsárlón fyrr í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Höfn könnuðu lögreglu- og björgunarsveitamenn aðstæður og hvort unnt væri að ná bifreiðinni aftur upp á þurrt land.

„Það er háflóð þarna núna og það kom ekki þetta logn sem vonast var eftir í fallaskiptunum þannig að björgunarsveitin gat ekkert athafnað sig,“ segir lögreglumaður á Höfn í samtali við mbl.is en bifreiðin kann að vera á um tíu metra dýpi.

Spurður hver næstu skref verða segir hann einungis hægt að bíða og sjá hvort bifreiðin losi olíu í lónið. Gerist það verður gerð tilraun til þess að finna bifreiðina og koma henni aftur upp á land. 

„Annars verður bíllinn bara látinn eyðast þarna,“ segir lögreglumaðurinn og bendir á að aðstæður séu mjög krefjandi á þessu svæði og sterkir straumar ríkjandi.

„Það er enginn að fara að kafa þarna því það er svo mikill straumur þarna. Það getur t.a.m. verið straumur inn og út á sama tíma,“ segir hann en bifreiðin liggur einhvers staðar á því svæði sem lónið teygir sig út í sjó og gætir því sjávarfalla á svæðinu.

„Það getur vel verið að bíllinn sé kominn á þann stað sem hann verður en ef það fer að koma mengun frá honum verður það skoðað.“

Í fyrri frétt mbl.is um málið kom m.a. fram að um er að ræða bílaleigubíl sem eldri kona frá Bandaríkjunum var með á leigu. Konan slapp ómeidd frá óhappinu en bifreiðin var mannlaus er hún rann ofan í lónið með farangur konunnar innanborðs.

Ekki er vitað hvað olli því að bifreiðin rann af stað en gera má ráð fyrir því að illa hafi verið gengið frá henni á bílastæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka