„Það var ákveðið að hætta við að bora granna holu og bora þess í stað fullbúna rannsóknarholu sem hægt er að nýta síðar. Svo verður tekin frekari ákvörðun um framhaldið í lok árs. Þá kemur í ljós hvort við borum fleiri holur, annaðhvort á Þeistareykjum eða í Bjarnarflagi.“
Þetta segir Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Landsvirkjun, í Morgunblaðinu í dag. Stefnt er að því hefja boranir á rannsóknarborholu á Þeistareykjum vegna jarðvarmavirkjunar, sem fyrirhugað er að rísi í Þingeyjarsýslu, um miðjan mánuðinn, annaðhvort í Bjarnarflagi eða á Þeistareykjum.
Jafnframt er unnið að því að hefja boranir í Bjarnarflagi en leyfisferli er styttra á veg komið þar. Gert er ráð fyrir að 45 MW virkjun muni rísa í Þingeyjarsýslu. Mikill jarðvarmi er talinn á svæðinu. Vísbendingar eru um að á Þeistareykjum sé veruleg framleiðslugeta umfram 45 MW en jarðhitasvæðið er talið vera eitt af stærri jarðhitakerfum Íslands. Að sögn Óla hefur þar farið fram umhverfismat fyrir 200 MW virkjun.