Vinnuferlar endurskoðaðir samhliða nýju kerfi

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að samhliða innleiðingu ORRA, fjárhags- og mannauðskerfis (ORACLE) ríkisins, hafi vinnuferlar verið endurskoðaðir enda geti ekkert tölvukerfi komið í stað vandaðra vinnubragða.

Forstjóri Landspítala fjallaði í föstudagspistli sínum um notkun Oracle-kerfisins (Orra) á Landspítala en kerfið hefur verið notað á spítalanum í níu ár.

„Fyrir innleiðingu ORRA vorum við með mörg gömul kerfi sem voru orðin erfið í viðhaldi og rekstri. Engar tengingar voru milli þeirra þannig að erfitt var að samræma gögn og fá heildaryfirsýn. Nú höfum við innleitt 26 kerfishluta í Orra, sumir þeirra eru algerlega staðlaðir en aðra hefur þurft að laga að þörfum LSH sem sjúkrahúss.

Til dæmis er verið að innleiða ORRA sem vörustýringarkerfi apóteks LSH og þurfti að sníða kerfið til þannig að það uppfyllti þær reglur og vinnuferli sem gilda á Íslandi um umsýslu lyfja.    

Í dag virka flestir meginhlutar kerfisins ágætlega en enn er eftir að ljúka innleiðingu mikilvægra þátta eins og vörustýringar á lagerum. Fjölmargir starfsmenn LSH hafa komið að þessari vinnu, fyrst og fremst starfsmenn fjármálasviðs en einnig fjármála- og mannauðsráðgjafar, starfsmenn heilbrigðis- og upplýsingatæknisviðs og margir fleiri. 

Samhliða innleiðingu kerfisins hafa vinnuferlar verið endurskoðaðir enda getur ekkert tölvukerfi komið í stað vandaðra vinnubragða. Þetta hefur allt kostað mikla vinnu og stundum hefur okkur þótt við þurfa að bíða lengi eftir endurbótum og séraðlögunum. Það verður samt að segjast eins og er að við höfum nú miklu betri yfirsýn yfir okkar fjármál en áður, getum rakið allan aðgang og aðgerðir í kerfinu  og uppgjör ganga hraðar,“ segir í pistli Björns sem lesa má í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert