Gat ekki varist hlátri

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sækir málið af hálfu ákæruvaldsins.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sækir málið af hálfu ákæruvaldsins. Morgunblaðið/Andri Karl

„Saksóknari biðst afsökunar ef hann hefur hlegið undir ræðu verjanda.“ Þetta sagði Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari við upphaf málflutnings þegar hann svaraði rökum verjanda Gunnars Andersen, fyrrverandi forstjóra FME, um að vísa ætti málinu frá.

Lögmaður Gunnars Andersen krefst þess að málinu verði vísað frá vegna þess að Gunnar og Helgi Magnús sóttu báðir um starf forstjóra FME árið 2009. Gunnar fékk starfið að loknu hæfnismati.

Guðjón Ólafur Jónsson, verjandi Gunnars, sagði að þessi niðurstaða hafi verið áfall fyrir Helga Magnús og ekki væri hægt að útiloka að þetta hefði haft áhrif á ákæruna. Hann benti á að við útgáfu ákæru bæri saksóknara bæði að horfa til atvika sem gætu leitt til sýknu og sektar.

Helgi Magnús sagði að hann hefði aldrei látið í ljós neina skoðun á því mati sem fór fram 2009 þegar Gunnar var ráðinn. Hann hefði aldrei látið í ljósi neina vanlíðan vegna þeirra niðurstöðu sem varð þegar ráðið var í starfið.

Helgi Magnús sagði að þau fordæmi sem Guðjón Ólafur vísaði til vörðuðu mál þar sem dómari hefði þurft að leggja eitthvert mat á málsatvik. Það ætti ekki við í þessu máli.

Helgi Magnús sagðist aldrei hafa dregið í efa hæfi Gunnars til að gegna starfinu. Þvert á móti sagðist hann telja Gunnar hafi verið einstaklega hæfan í sínu starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka