Neitar tengslum við flokkinn

Forsíða Mannlífs sem kemur út á morgun
Forsíða Mannlífs sem kemur út á morgun

Kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo starfaði á sínum yngri árum fyrir áróðursdeild kínverska Kommúnistaflokksins og sumir telja að áhugi hans á Íslandi tengist fyrst og fremst vilja Kínverja til að auka ítök sín í Norður-Atlantshafi. Þessu hafnar hann alfarið í viðtali í tímaritinu Mannlífi.

„Ég var bara embættismaður og vann að ýmsum málum sem tengdust útgáfu á efni fyrir flokkinn, upplýsingum, menningu og menntun. Ég hugsa að starf mitt hafi verið svipað störfum annarra embættismanna í öðrum löndum,“ segir hann enn fremur, spurður út í störf sín hjá áróðursdeildinni. „Fortíð mín hjá flokknum tengist á engan hátt áhuga mínum á Íslandi, sá áhugi er eingöngu persónulegur.“

 Kínverski athafnamaðurinn er í hópi ríkustu manna heims. Verði áætlanir hans um fjárfestingar á Íslandi, bæði tengdar Grímsstöðum á Fjöllum og fyrirhuguðu fimm stjörnu hóteli í Reykjavík, að veruleika, mun heildarverðmæti verkefna hans hér á landi nema um 25 milljörðum króna.

Í viðtali við Mannlíf ræðir Huang Nubo meðal annars um ferðir sínar á heimskautin og hæstu tinda heims, foreldramissi, erfiða æsku og ástina á náttúrunni. Mannlíf kemur út á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert